Von er á litlum breytingum í veðrinu næstu daga, linnulítil norðaustanátt með éljum fyrir norðan og austan, en að mestu bjart sunnan- og vestan til. Áfram kalt í veðri og ekki útlit fyrir að hiti fari mikið yfir frostmark eins langt og spár ná, segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Á Vestfjörðum verður norðaustanátt í dag, 5-13 m/s og stöku él, einkum norðantil. Frost 2 til 8 stig.
Vetrarfærð er á Vestfjörðum, víðast hálka eða snjóþekja og sums staðar skafrenningur eða él. Þæfingsfærð er á Klettshálsi og Steingrímsfjarðarheiði.
Veðurhorfur næstu daga:
Föstudag og laugardag
Norðaustan kaldi og él með norður- og austurströndinni, en hægari um landið suðvestanvert og lengst af léttskýjað. Frost 0 til 8 stig, mildast með suðurströndinni.
Á sunnudag, mánudag og þriðjudag
Norðaustlægar áttir og él, en að mestu bjart um landið vestanvert. Áfram frost um allt land, en frostlaust með suður- og suðvesturströndinni yfir hádaginn.