Fiskistofa hefur tekið saman skrá yfir 100 stærstu handhafa hlutdeilda og 50 stærstu handhafa krókaaflahlutdeilda. Sem fyrr ræður HB Grandi yfir mestum hlutdeildum, síðan koma Samherji og Síldarvinnslan. Grunnur ehf í Hafnarfirði ræður yfir mestri krókaaflamarkshlutdeild. Fiskistofa hefur eftirlit með því að yfirráð einstakra aðila yfir aflahlutdeildum fari ekki umfram þau mörk sem lög kveða á um.
HB Grandi er með um 10,9% af hlutdeildunum, eða 43.600 þorskígildistonn. Samherji er með 6,3%. Samanlagt ráða þessi tvö stærstu útgerðarfyrirtæki landsins því yfir 17,2% af hlutdeildunum í kvótakerfinu. Í 3. til 5. sæti eru Síldarvinnslan í Neskaupstað, Þorbjörn í Grindavík og FISK-Seafood Sauðárkróki. Aflahlutdeild Hraðfrystihússins-Gunnvarar í Hnífsdal er 2,96%, eða 12.400 þorskígildistonn og fyrirtækið raðast í 12. sæti á lista yfir kvótahæstu útgerðir landsins.
Kvóti Jakobs Valgeirs ehf. í Bolungarvík er 6.800 þorskígildistonn í stóra kerfinu auk 1.900 tonna kvóta í krókakerfinu.