Meðalatvinnutekjur á Vestfjörðum voru fyrir einum áratug verulega lægri en á landinu í heild, en nálgast nú landsmeðaltalið. Þetta gerist á sama tíma og lang mesti vöxtur atvinnutekna er í fiskeldi í landsfjórðungnum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Byggðastofnunar. Það má því segja að fiskeldið hafi í senn aukið atvinnuframboð og hækkað atvinnutekjur á Vestfjörðum.
Hið sama mun gerast á Austfjörðum
Þetta eru athyglisverðar staðreyndir og koma meðal annars vel heim og saman við álit sveitarstjórnarmanna á Vestfjörðum, sem hafa bent á að fiskeldi hafi þegar haft jákvæð áhrif í búsetu og atvinnusköpun á svæðinu og geri það í enn stærra mæli á næstu árum með fyrirséðum og áætluðum vexti fiskeldis.
Nákvæmlega hið sama mun gerast á Austfjörðum. Þar er stundað fiskeldi eins og kunugt er, slátrun á laxi hafin á Djúpavogi og hefst í lok ársins í Reyðarfirði. Á næstu árum munum við því sjá sambærilegar tölur á Austfjörðum.
Sérstaklega jákvæð áhrif þar sem fiskeldisuppbyggingar gætir
Nú er ljóst að lang mesti hluti uppbyggingar í fiskeldi á Vestfjörðum hefur verið á sunnanverðum Vestfjörðum. Í tölum Byggðastofnunar er Vestfjörðum skipt í tvennt. Annars vegar skoðar stofnunin Ísafjarðarbæ og hins vegar byggðir utan þessa lang stærsta byggðakjarna Vestfjarða. Í báðum tilvikum er þróun atvinnuteknanna jákvæð. En það á þó sérstaklega við um byggðirnar utan Ísafjarðarbæjar og inni í því mengi eru sunnanverðir Vestfirðir. Skoðum það aðeins nánar.
Hlutfall atvinnutekna af landsmeðaltali, á Vestfjörðum utan Ísafjarðar, var 88,5% árið 2008, en var árið 2016 orðið 97,33%. Þetta er ekkert minna en gjörbreyting. Augljóst er að berandi þáttur í þessari breytingu er tilkoma fiskeldisins, sem skapað hefur fjölda starfa og stóraukna fjölbreytni. Það er líka til marks um vægi fiskeldisins í atvinnusköpuninni á svæðinu utan Ísafjarðarbæjar að atvinnutekjur í fiskeldi voru árið 2016 lítið eitt minni en í fiskvinnslu á svæðinu. Þó er mjög öflug fiskvinnsla á þessu svæði, svo sem í Bolungarvík og á Patreksfirði og rækjuvinnsla á Hólmavík.
Gerist á undraskömmum tíma
Þetta segir mikla sögu um þýðingu þá sem fiskeldið hefur þegar haft þar sem það er hafið fyrir alvöru. Athyglisvert er líka að þetta gerist á undraskömmum tíma og áhrifanna hefur fyrst og fremst farið að gæta á allra síðustu árum.
Það er einnig athyglisvert að á sama tíma og fiskeldið hefur vaxið sjáum við vöxt í öðrum atvinnugreinum á Vestfjörðum. Nefna má í því sambandi ferðaþjónustuna. Þetta sýnir að fiskeldið styður við aðrar atvinnugreinar, starfræksla þess er í góðri sátt við annað atvinnulíf og skapar umsvif á mörgum sviðum. Öflugar atvinnugreinar kalla nefnilega á margvíslega þjónustu.
Gott dæmi um þetta sjáum við einnig á Austfjörðum. Þar hefur orðið mikill vöxtur í sjávarútvegi, ekki síst uppsjávarveiðum og vinnslu. Þessi uppbygging kallar á aðra þjónustu. Með auknum umsvifum fjölgar fólki, forsendur verða til annarrar atvinnuuppbygginar, ekki síst á sviði þjónustu og reynslan sýnir að aðrar atvinnugreinar, ekki síst ferðaþjónusta nýtur góðs af.
Efling fiskeldis skapar forsendur fyrir annars konar atvinnusköpun
Af þessu sést að tilkoma fiskeldis fjölgar ekki einasta beinum og óbeinum störfum heldur mun jákvæð íbúaþróun skapa forsendur fyrir atvinnusköpun á allt öðrum sviðum sem styrkja byggðirnar enn frekar.
Einar Kristinn Guðfinnsson, formaður Landssambands fiskeldisstöðva