Hallgrímur biðst afsökunar á „ruddalegum“ skrifum

Hallgrímur Helgason rithöfundur hefur beðist afsökunar á því að hafa líkt landsbyggðinni við hamfarasvæði í stríðshrjáðu landi. Tilefni ummæla Hallgríms er koma flóttamanna til landsins sem munu búa á Flateyri, Súðavík, Ísafirði, Reyðarfirði, Neskaupstað og Egilsstöðum.

Hallgrímur skrifaði á Twitter í gær að þessi ráðstöfun væri galin. „Við fáum fólk frá hamfarasvæðum, hvert sendum við það? Jú, á okkar eigin hamfarasvæði, þar sem enginn Íslendingur vill lengur búa… Þetta er svo brútalt,“ skrifaði Hallgrímur.

Það þarf ekki að taka fram að orð Hallgríms féllu í grýttan jarðveg.

Nú hefur Hallgrímur dregið í land og beðist afsökunar á þessari ruddalegu athugasemd eins og hann kallar hana sjálfur og segist hafa verið að tala um mál sem hann viti ekkert um.

„Ég þykist líka vita að góður og opinn hugur tekur á móti komufólkinu um allt land. Og bið ég svo vini mína á landsbyggðinni að fyrirgefa mér þetta rugl, en einkum þó flóttamennina sjálfa, en þeir eru jú mikilvægastir í þessu öllu. Orðið “hamfarasvæði” var mjög taktlaust í þessu sambandi. Ég vildi að ég gæti tekið þetta komment til baka en það er víst ekki hægt. Því bið ég, kæru vinir, að þið vegið þessi orð hér gegn hinum,“ segir Hallgrímur.

DEILA