Niðurgreiðsla flugfarmiða til skoðunar

Ísafjarðarflugvöllur.

Til greina kem­ur að „niður­greiða flug­far­gjöld fyr­ir íbúa til­tek­inna svæða“ í inn­an­lands­flugi. Inn­an­lands­flug verður einnig hag­stæðari val­kost­ur en nú er, en sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra mun beita sér fyr­ir slík­um aðgerðum. Þetta kem­ur fram í svari ráðherra við fyrirspurn Bjarna Jónssonar, varaþingmans VG í Norðvesturkjördæmi.

Í svarinu segir að stefna stjórnvalda hafi verið að draga úr rekstrarkostnaði flugrekenda með það að markmiði að halda farmiðaverði niðri. Í því skyni hefur rekstur flugvallanna verið fjármagnaður að tveimur þriðju hlutum af ríkissjóði en að einum þriðja af þjónustugjöldum sem flugrekendur greiða. Vegna þess að framlag ríkisins hefur ekki verið verðtryggt hefur þróunin verið sú að framlag ríkisins hefur í vaxandi mæli farið í rekstur flugvallanna en viðhald og uppbygging þeirra hefur liðið fyrir.

Bjarni spurði ráðherra ennfremur hvort að ráðherra hyggist beita sér fyrir skosku leiðinni svokölluðu. Í svari ráðherra segir að til greina komi að niðurgreiða flugfargjöld tiltekinna svæða. Í nokkrum löndum er boðið upp á slíka fyrirgreiðslu, m.a. á Kanaríeyjum og í Skotlandi.

Útfærslan er mismunandi en byggist á styrkjareglum um sértæka styrki til handa íbúum til þess að jafna aðgengi þeirra að þjónustu. Ráðherra segir að slíkar leiðir hafi meðal annars verið skoðaðar á grundvelli kynjaðar fjárlagagerðar í þeim tilgangi að styrkja stöðu kvenna á landsbyggðinni.

Ráðherra hyggst beita sér fyrir aðgerðum til að gera innanlandsflug að hagstæðari valkosti en nú er. Tillögur ráðherra munu byggjast á niðurstöðum þeirra starfshópa sem fjallað hafa um efnið og munu þær jafnframt taka mið af heildrænni stefnu um almenningssamgöngur í lofti, á sjó og landi.

DEILA