Franska kvikmyndahátíðin sem fram fór í Ísafjarðrbíói um helgina tókst einstaklega vel. Hátíðin hefur verið árlegur viðburður í Reykjavík og á Akureyri í 18 ár var nú haldin í fyrsta skipti á Ísafirði. Franski sendiherrann á Íslandi, Graham Paul, setti hátíðina á föstudag og bauð bíógestum uppá fordrykk.
Mikil breidd var í myndunum fimm sem sýndar voru á hátíðinni og sýningarnar vel sóttar. Dansnemendur Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar á Ísafirði fylktu liði til að sjá myndina POLINA á mánudag en hún fjallar um unga ballettdansmær og leit hennar að réttu danstjáningunni.
Bíósalurinn var þétt setinn börnum frá fjögurra ára aldri og allt fram á unglingsár og greinilegt að efni myndarinnar hafði áhrif og ekki virtist trufla mikið þó yngstu börnin þyrftu að nota hugmyndaflugið til að skilja allt sem fram fór. Það er vilji aðstandenda kvikmyndahátíðarinnar að gera hana að árvissum viðburði hér eftir.