Fjármagna lokahnykkinn á Karolina Fund

Félag um Listasafn Samúels í Selárdal hefur nú hrundið af stað söfnun á Karolina Fund til að fjármagna lokahnykkinn við endurreisn þessa einstaka listagarðs sem staðsettur er á hjara veraldar.

Félagið hefur nú starfað í 20 ár, og nú er þörf hjálp við að koma húsi Samúels í Selárdal í notkun á þessum tímamótum við endurreisn safnsins. Það hefur tekið níu ár að gera gamla íbúðarhús Samúels fokhelt, en til stendur að þar verði aðstaða fyrir gesti, veitingar og búð. Til þess að húsið nýtist sem skyldi þarf hjálp frá góðu fólki til að ná endum saman við að fjármagna lokahnykkinn.

Safnið er um verk listamannsins Samúels Jónssonar sem lést 1969. Síðastliðin 20 ár hefur verið unnið að endurreisn listaverka og bygginga Samúels í Selárdal í Arnarfirði. Byggingar Samúels og höggmyndagarður voru hans síðustu verk og staðnum hefur nú verið breytt í safn sem félagið hefur umsjón með.  Fyrirhugað er að halda afmælishelgi í ágúst til að halda upp á þessi tímamót.

Félag um Listasafn Samúels er áhugafélag og allur hagnaður starfseminnar rennur beint til verkefnisins. Stjórn félagsins stýrir verkefninu í samvinnu við fjármála- og efnahagsráðuneytið sem er eigandi staðarins. Jarðadeild ráðuneytisins hefur gert félaginu kleift að fá byggingarleyfi vegna endurgerðar húss Samúels og hefur verið samráð um endurreisnina við landbúnaðarráðuneytið frá 2004 og frá 2010 við fjármálaráðuneytið þegar jarðadeildin fluttist þangað.

Samúel hefur verið kallaður listamaðurinn með barnshjartað, enda var hann alþýðumaður með stóra drauma sem margir hverjir urðu ljóslifandi í listagarði hans í Selárdal. Öll verk Samúels bera honum fagurt vitni og var hann víða þekktur fyrir hæfileika sína. Hans er þó hvergi getið í ritum um íslenska listasögu.

Samúel málaði fjölmörg olíumálverk og landslagsmyndir sem hann rammaði inn sjálfur. Hann gerði sér högglistagarð, skar út í tré og gerði einnig líkön, m.a. af Péturskirkjunni í Róm og af indversku musteri. Þessi líkön voru listavel gerð úr hundruðum ef ekki þúsundum smáhluta og duldist engum að bak við þessi líkön voru margar vinnustundir, þolinmæði og djúpstæð sköpunargleði. Samúel gerði hinsvegar ekki víðreist um dagana. Til annara landa hafði hann aldrei komið en studdist við myndir úr bókum og póstkort við listsköpun sína.

Þegar kirkjan í Selárdal fagnaði 100 ára afmæli málaði Samúel altaristöflu sem hann hugðist gefa kirkjunni. Önnur altaristafla var þar fyrir og hafnaði sóknarnefndin gjöf Samúels honum til sárra vonbrigða. Hann lét þó ekki hugfallast og reisti af eigin rammleik kirkju sem hýsa skyldi altaristöfluna. Kirkjan var steypt upp af mikilli útsjónarsemi og í þrepum því Samúel hafði aðeins eitt sett af mótatimbri og gat því aðeins steypt upp sem svaraði einni fjöl í einu. Mölina í steypuna sótti hann niður í fjöru og bar á bakinu (lyft á eins manns herðum) og sementið sótti hann á Bíldudal.

Listaverk Samúels eru alþýðuminjar sem eiga engar sínar líkar annarsstaðar á landinu.  Náttúruöflin í Selárdal höfðu leikið þær grátt þegar endureisn listaverkanna var hrundið af stað og félag um það verkefni var stofnað.

 

 

DEILA