„Við vonumst til að vera búnir að hreinsa fyrir helgi svo lengi sem það kemur ekki meiri snjór ofan í þetta,“ segir Kristján Andri Guðjónsson, verkstjóri áhaldahúss Ísafjarðarbæjar. Að sögn Kristjáns Andra er snjórinn þungur og snjómoksturinn því seinunninn.
Ein grafa áhaldahússins bilaði í gær og verður frá næstu tvo daga. „Við erum því með tvær vélar frá okkur auk þessa að vera með þrjá verktaka í vinnu.“
Í þorpunum í kring er bærinn með samninga við verktaka. „Mokstur hefur gengið ágætlega á Þingeyri og á Flateyri eftir því sem mér skilst en á Suðureyri er mjög mikill snjór og mér er sagt að við hér á Ísafirði fengum bara sýnishorn miðað við fannfergið þar,“ segir Kristján Andri.
Í Hnífsdal fennti einnig mikið og Kristján Andri segir að í gær hafi tekist að opna allar götur en hreinsun er ekki lokið.