Hörður kaupir skrúfuþotu

Hörður Guðmundsson. Mynd: Stöð 2.

Flugfélagið Ernir hefur keypt 32 sæta hraðfleyga skrúfuþotu, af gerðinni Dornier 328. Eigandinn, Hörður Guðmundsson, stefnir á tvær til þrjár slíkar, bæði til nota á innanlandsleiðum og í leiguflugi til nágrannalanda. Rætt var við Hörð í fréttum Stöðvar 2. Hörður stefnir að því að Dornierinn verði kominn í rekstur í apríl.

Þegar flugsaga Vestfjarða verður rituð verður nafn Harðar Guðmundssonar feitletrað. Hann hóf flugrekstur á Ísafirði árið 1970 þegar Flugfélagið Ernir var stofnað. Hörður og hans menn voru í um 30 ár einir mikilvægustu póstar í samgöngukerfi fjórðungsins. Þá er ótalið öryggishlutverkið, en Ernir sinnti sjúkraflugi alla tíð félagsins fyrir vestan.

Með breyttum tímum minnkuðu verkefnin fyrir vestan og frá 2003 hefur félagið verið starfrækt í Reykjavík. Ernir flýgur á tvo áætlunarvelli á Vestfjörðum, Gjögurs og Bíldudals.

DEILA