„Þokumst nær endamarkinu“

Páll Pálsson ÍS 102.

Áhugamenn um vestfirskan sjávarútveg fylgjast flestir ef ekki allir með Facebook-síðu nýja Páls Pálssonar ÍS sem er í smíðum í Kína. Um helgina var greint frá á síðunni að nú sé farið að styttast í afhendingu á togaranum. „Þetta er að styttast og við erum að þokast nær endamarkinu,“ segir Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins – Gunnvarar hf. Hann segir ekki tímabært að nefna dagsetningu á afhendingu. „Þegar maður hefur ekki fulla stjórn á atburðarásinni er betra að vera ekki með stórar yfirlýsingar. En þetta er að styttast og það er ágætis gangur í þessu núna hjá Kínverjunum,“ segir hann.

Þann 16. febrúar eru áramót í Kína og ár hanans kveður og ár hundsins tekur við. Kínverjar taka áramótin mjög alvarlega og dagana fyrir og eftir áramótin eru mikil hátíðarhöld. „Efnahagslífið í Kína fer í hægagang í kringum áramótin og það gæti haft einhver áhrif á afhendinguna,“ segir Einar Valur.

Bæði Páll og systurskipið Breki VE fóru í þurrkví í skipasmíðastöðinni fyrir nokkrum dögum. Er verið að þrífa þá og botnhreinsa til að togararnir verði klárir til afhendingar.

Þegar Páll kemur til Ísafjarðar, með hækkandi sól eins og Einar Valur orðar það, tekur við vinna á millidekki og í lest. „Það var gengið frá því snemma í ferlinu að búnaðurinn kæmi frá 3X og þeir eru byrjaðir að smíða búnaðinn hér heima og setja hann svo upp þegar skipið kemur heim,“ segir Einar Valur.

DEILA