Fimmtíu ár verða brátt liðin frá sjóslysunum miklu í Ísafjarðardjúpi í byrjun febrúar 1968, en þá fórust 26 sjómenn af tveimur breskum togurum og einum íslenskum vélbáti. Af þessu tilefni verður haldin athöfn um borð í varðskipinu Óðni til minningar um þá sem týndu lífi þennan örlagaríka sólarhring og jafnframt til að minnast þess björgunarafreks sem áhöfnin á Óðni vann. Athöfnin hefst klukkan 16 í dag. Óðinn liggur við festar við Sjóminjasafnið í Reykjavík, við Grandagarð 8.
Sex manna áhöfn Heiðrúnar II frá Bolungarvík var á meðal þeirra sem fórust, auk 19 manna áhafnar breska togarans Ross Cleveland, en einn skipverja togarans, Harry Eddom, bjargaðist við illan leik. Sama dag strandaði breski togarinn Notts County á Snæfjallaströnd, en áhöfn Óðins vann hetjudáð þegar hún bjargaði skipverjum hans. Einn þeirra var þegar látinn er Óðinn komst á slysstað.
Minningarathöfnin fer fram í þyrluskýli Óðins og mun sr. Hjálmar Jónsson fara með minningarorð og Michael Nevin, sendiherra Breta á Íslandi, mun jafnframt ávarpa samkomuna.
Í kjölfarið verður boðið upp á kaffiveitingar í messa skipsins, samkvæmt upplýsingum frá Sjóminjasafninu. Þar mun Gylfi Geirsson, formaður öldungaráðs Landhelgisgæslunnar og fyrrverandi starfsmaður hennar, fjalla um björgunarafrekið sem áhöfn Óðins vann.
Þegar 30 ár voru frá mannskaðaveðrinu í Ísafjarðardjúpi birtist viðtal í Morgunblaðinu við Sigurð Þ. Árnason sem var skipherra á Óðni:
„Við höfðum legið við akkeri skamma stund innan við Flateyri þegar barst kall frá breska togaranum Wyre Mariner sem óskaði eftir aðstoð. Hann var staddur í mynni Ísafjarðardjúps en þar var komið norðaustan rok og leki kominn að vélarrúminu,“ segir Sigurður. Var þetta laugardaginn 3. febrúar 1968.
Tilkynnt var að varðskipið héldi þegar í átt að togaranum og þegar komið var út úr firðinum var komin norðaustan átt með átta vindstigum og samsvarandi sjó. Óðinn var kominn inn í Ísafjarðardjúp klukkan 23.49 en þá var ljóst að Wyre Mariner kæmist hjálparlaust til Ísafjarðar.
„Þá leituðum við vars undir Grænuhlíð þar sem einnig voru í vari 22 breskir togarar vegna veðurs. Þar var lónað aðfaranótt sunnudagsins 4. febrúar en þá var vindhraðinn 5-12 vindstig.“
Fyrri hluta næsta dags geisaði norðaustan ofsaveður á þessum slóðum og hlóðst ísing á ratsjárloftnet skipanna svo þau sem voru við hlið Óðins sáust mjög illa í ratsjá. Því fór varðskipið inn í Jökulfirði vegna árekstrarhættu til þess að lóna þar einskipa.
Klukkan 12.20 tilkynnti Ísafjarðarradíó að Heiðrún II væri í Djúpinu með bilaðan dýptarmæli og bilaða ratsjá. „Reyndar hafði þurft að færa hana frá bryggjunni í Bolungarvík vegna brims en hún slitnaði áður en skipstjórinn komst um borð svo vélstjórinn fór með hana úr höfninni. Hann ætlaði með hana inn á Ísafjörð,“ segir Sigurður.
Klukkan 21.55 óskaði Heiðrún eftir því að Óðinn staðsetti sig og segir Sigurður að mjög illa hafi gengið að hafa samband við bátinn þar sem hann andæfði við ljósdufl undir Bjarnarnúp. „Við fundum hana 1-2 mílur undan landi en veðrið hafði hert mjög svo ekki varð við neitt ráðið,“ segir hann. Töldu varðskipsmenn sig vera við hlið Heiðrúnar og tilkynntu henni staðsetningu en skömmu áður en komið var til bátsins skall á ofsaveður svo ratsjár urðu óvirkar. Afréð skipherrann því að lóna undir Grænuhlíð til þess að freista þess að hreinsa loftnet og voru allir togararnir á svæðinu í sömu vandræðum með ratsjár, að hans sögn.
Ross Cleveland bilaður og Notts County strandar
Um klukkan 22.57 tilkynnti Ísafjarðarradíó að breski togarinn Ross Cleveland væri 3 sjómílur frá Arnarnesi með bilaða ratsjá og að hinir togararnir næðu honum ekki inn á sínar ratsjár. Um klukkan 23.30 tilkynnti Ísafjarðarradíó að breski togarinn Notts County væri strandaður.
„Á leiðinni að hinu strandaða skipi töldum við okkur sjá í ratsjánni skip sem gæti verið Heiðrún en þá var sambandið við bátinn rofið og heyrðist ekkert í honum eftir það. Við hættum að heyra frá henni aðfaranótt mánudags,“ segir hann.
Klukkan 01.35 tilkynnti breskur togari að togarinn Ross Cleveland hefði sokkið klukkan 23.40 og að enginn hefði komist af.
Klukkan 02.00 var ljóst að ekkert væri hægt að aðhafast á strandstað Notts County og því lónað vestur fyrir Bjarnarnúp til þess að svipast um eftir Heiðrúnu og því haldið áfram til 07.00 án árangurs. „Þeir kvörtuðu mikið á Notts County um vosbúð og við reyndum að stappa í þá stálinu meðan beðið var betra veðurs,“ segir Sigurður.
Klukkan 05.50 tilkynnti Ísafjarðarradíó að heyrst hefði neyðarkall frá Notts County. Um klukkan 08.00 var aftur komið á strandstað þar sem þá voru 8 vindstig af norðaustan. Nokkru síðar náðist slitrótt samband við togarann sem tilkynnti að mennirnir væru enn um borð en að líðan þeirra væri mjög slæm. „Klukkan 09.13 tilkynnti Notts County síðan að botninn væri að brotna undan skipinu og að þeir væru að fara á flot um borð. Voru fyrirmæli send til skipshafnar að fara ekki frá borði heldur bíða þess að veður batnaði.“ Segir hann hafa verið erfitt að bíða undir þessum kringumstæðum en að ekki hafi verið viðlit að bjarga þeim fyrr.
Sigurður segir að Notts County hafi fyrst sést með berum augum klukkan 12 en þá var vitað að 18 menn væru á lífi, einn látinn og fjórir með kalsár. „Varðskipið lónaði upp undir togarann og þegar 0,1 sjómíla var milli skipanna fór gúmbátur með utanborðsmótor yfir í togarann með tvo óútblásna 10 manna gúmbáta. Í bátnum voru þeir Sigurjón Hannesson 1. stýrimaður og Pálmi Hlöðversson 2. stýrimaður sem báðir buðust til þess að fara þessa ferð. Ferðin gekk vel en hægt vegna þess hversu hvasst var. Greiðlega gekk að ná mönnunum úr björgunarbátunum og um borð í varðskipið. Björgunaraðgerðum var lokið um klukkan 14.30, á um það bil klukkutíma. Þá var farið með skipbrotsmenn inn til Ísafjarðar og til læknis“ segir Sigurður loks.
Daginn eftir, hinn 6. febrúar, var haldið á strandstað til þess að sækja lík skipverjans sem lést og það flutt til Ísafjarðar. Síðan hélt varðskipið frá Ísafirði til þess að leita að Heiðrúnu í Jökulfjörðum. Sú leit bar engan árangur.