Þess verður minnst bæði í Reykjavík og í Bolungarvík að nú eru fimmtíu ár frá sjóslysunum miklu í Ísafjarðardjúpi í byrjun febrúar 1968. Þá fórust 26 sjómenn af tveimur breskum togurum og Heiðrúnu ÍS. Í Bolungarvík verður minningarathöfn í Félagsheimilinu Bolungarvíkur á sunnudaginn kl. 15. Borgarsögusafn Reykjavíkur stendur fyrir athöfn í varðskipinu Óðni á mánudaginn kl. 16.
Þeir sem fórust voru sex manna áhöfn Heiðrúnar II frá Bolungarvík og 19 manna áhöfn breska togarans Ross Cleveland, fyrir utan einn mann sem bjargaðist við illan leik. Togarinn Notts County strandaði sama dag á Snæfjallaströnd, en áhöfn Óðins vann hetjudáð þegar hún bjargaði skipverjum þess en einn þeirra var þegar látinn er Óðinn komst á slysstað. Vegna aðkomu áhafnar Óðins, með Sigurð Árnason skipherra í fararbroddi, var 18 mannslífum bjargað þennan dag.
Sr. Hjálmar Jónsson fer með minningarorð í Óðni en Michael Nevin, sendiherra Breta á Íslandi, mun jafnframt ávarpa samkomuna. Í kjölfarið verður boðið upp á kaffiveitingar í messa skipsins. Þar mun Gylfi Geirsson, formaður Öldungaráðs Landhelgisgæslunnar og fyrrverandi starfsmaður hennar, fjalla um björgunarafrekið sem áhöfn Óðins vann.
Varðskipið Óðinn liggur við festar við Sjóminjasafnið í Reykjavík við Grandagarð 8.
Ætluðu að koma skipinu í örugga höfn
Sunnudagsmorgunninn þann 4. febrúar 1968, um kl. 10:00 fyrir hádegi, fór frá Brimbrjótnum í Bolungarvík Heiðrún II. Óveður var þá þegar skollið á, og átti að bjarga skipinu með því að sigla því til öruggrar hafnar á Ísafirði, en við Brimbrjótinn var skipið í hættu.
Ferðin gekk vel til móts við Hnífsdal, en bilana hafði gætt í radar, dýptarmælum og talstöð. Fyrir utan Hnífsdal varð radarinn óvirkur vegna ísingar og komst ekki í lag eftir það. Var skipinu því siglt í var undir Snæfjallaströnd. Ofsaveður var þá þegar komið á, sem enn átti eftir að versna. Skömmu eftir miðnætti aðfaranótt mánudagsins 5. febrúar heyrðist síðast til skipsins, og fullvíst má telja að Heiðrún II hafi farist um það leyti, um 2,7 sjómílur undan Vébjarnarnúpi.
Heiðrún II var smíðuð árið 1963 á Akranesi og var 150 tonna eikarskip með 470 hestafla Krumhout vél. Skipið var í eigu Einars Guðfinnssonar í Bolungarvík og var talið traust og gott sjóskip. Skipið var áður gert út frá Sandgerði undir nafninu Páll Pálsson GK 360.
Með Heiðrúnu fórust sex menn:
Rögnvaldur Sigurjónsson, 52 ára, skipstjóri
Ragnar, 18 ára sonur Rögnvalds
Sigurjón, 17 ára sonur Rögnvalds
Páll Ísleifur Vilhjálmsson, 31 árs, vélstjóri
Kjartan Halldór Kjartansson, 23 ára
Sigurður Sigurðsson, 17 ára