Nýir eigendur hafa tekið við stjórnartaumunum hjá bb.is. Þeir eru Gunnar Þórðarson, Shiran Þórisson, Daníel Jakobsson og Arnar Kristjánsson. Samningar um kaup á fjölmiðlinum var undirritaður í gær. Gunnar segir að þetta hafi borið mjög brátt að. „Þegar við fregnum að allt stefndi í að miðlinum yrði lokað fannst okkur það ótækt, það er mikilvægt fyrir okkur Vestfirðinga að hér sé starfandi fjölmiðill. Því fórum við út í þetta. Við lítum á þetta sem samfélagsverkefni,“ segir Gunnar.
Hann segir að fljótlega, mögulega í næstu viku, verði kallað saman á stofnfund félags um rekstur á bb.is. „Okkur finnst mjög mikilvægt að hópurinn sem stendur að þessu verði breikkaður og viljum fá fleiri inn í eigendahópinn. Við sjáum fyrir okkur að það verði stofnuð ritstjórn með breiða skírskotun þannig að blaðið verði hafið yfir pólitíska flokkadrætti,“ segir Gunnar.