Um liðna helgi var mikið um að vera hjá yngri flokkum Vestra því alls tóku þrír flokkar þátt í fjölliðamótum Íslandsmótsins. Minnibolti eldri stúlkna lék á Selfossi, 9. flokkur stúlkna spilaði í B-riðli í Hafnarfirði og 10. flokkur drengja í A-riðli í Reykjavík. Það skiptust á skin og skúrir eins og gengur hjá þessum flokkum en allt fer þetta í reynslubankann.
Níundi flokkur stúlkna lék í B-riðli á Ásvöllum í Hafnarfirði um nýliðna helgi en stelpurnar féllu úr A-riðli í síðustu umferð. Þær voru staðráðnar í að vinna sér sæti meðal þeirra bestu aftur og mættu afar ákveðnar til leiks.
Fyrsti leikur mótsins var um hádegisbilið á laugardag gegn sjálfum gestgjöfum mótsins Haukum. Lokatölur urðu 58-20 fyrir Vestra. Allir leikmenn Vestra skoruðu í leiknum og stóðu sig með mikilli prýði.
Á sunnudagsmorgun mættu Vestra stúlkur svo Stjörnunni en Stjarnan hafði sigrað Snæfell á laugardeginum og því til alls líklegar. Framan af var leikurinn nokkuð jafn en þegar líða tók á seinni hálfleik var ljóst að Vestra stelpur ætluðu ekki að gefa neitt eftir og lokatölur urðu 62-37 Vestra í vil.
Lokaleikur mótsins var leikur Vestra og Snæfells. Snæfell leiddi leikinn lengi með litlum mun en enn á ný gerði frábær varnarleikur Vestra það að verkum að munurinn var aldrei mikill. Lokasekúndur leiksins voru æsispennandi. Þegar aðeins fjórar sekúndur voru eftir var Vestri einu stigi undir og átti innkast. Boltinn rataði til Helenu Haraldsdóttur undir körfunni og brutu Snæfellsstúlkur strax á henni. Helena fór því á vítalínuna þegar aðeins tvær sekúndur voru eftir. Fyrra vítið klikkaði og því var hið seinna eins mikilvægt og þau gerast. Helenu brást ekki bogalistin í því og tryggði Vestra framlengingu. Í framlengingunni náðu Vestra stúlkur yfirhöndinni og gáfu ekkert eftir en Snæfellsstúlkur voru eðlilega orðnar nokkuð þreyttar. Lokatölur 48-52 fyrir Vestra.
Stelpurnar munu því aftur leika meðal þeirra bestu í lokaumferð Íslandsmótsins sem fram fer í apríl. Það er Yngvi Páll Gunnlaugsson, yfirþjálfari Vestra, sem stýrir þessum vaska hópi.
Í Valshöllinni mætti lið Vestramanna, sem er sameiginlegt lið Vestra og Skallagríms, bestu liðum landsins í A-riðli. Strákarnir höfðu sýnt styrk sinn í síðustu umferð sem fram fór á Torfnesi í haust en þar unnu þeir riðilinn með glæsibrag. Þessi riðill er afar sterkur og hefur sýnt sig að allir geta unnið alla og liðin því í raun mjög jöfn.
Vestramenn hófu leik gegn nýkrýndum bikarmeisturum Fjölnis. Þrátt fyrir köflótta spilamennsku sýndu strákarnir hvað í þeim býr og lögðu Fjölnismenn í framlengingu 77-74. Liðið tapaði öðrum leikjum mótsins og voru úrslit þau að Stjarnan sigraði Vestra 67-43, Valur 74-61 og KR 63-52. Þrátt fyrir þessi úrslit héldu Vestramenn sæti sínu í A-riðli en Fjölnir féll niður í B-riðil eftir tap í öllum leikjum.
Eldri stelpurnar í minnibolta léku um helgina á Selfossi og mættu þar B og C liði ÍR, Þór Þorlákshöfn og Njarðvík. Vestrastelpurnar höfðu sigur í öllum leikjum nema gegn Þór Þorlákshöfn og halda þær því sæti sínu í B-riðli Íslandsmótsins í MB11 ára. Stelpurnar voru einungis fimm með í för að þessu sinni en leikið er fjórir á fjóra.