Fjölbreytt flóra á Aldrei fór ég suður

Á móti sól spilar á Aldrei fór ég suður.

Æðstu klerkar Aldrei fór ég suður hafa tilkynnt fyrstu tíu hljómsveitirnar sem spila á Aldrei fór ég suður 2018. Hátíðin verður haldin í hvorki meira né minna en fimmtánda sinn. Við þessi tíu nöfn eiga eftir að bætast í það minnsta fjögur atriði. Að venju verður boðið upp á fjölbreytta flóru; þungarokk, vinsældarapp, indípopp, sveitaballapopp, kuldadiskó, R&B og fleira.

Þessi koma fram á Aldrei fór ég suður 2018:

  • Kolrassa krókríðandi
  • Dimma
  • Jói Pjé og Króli
  • Between Mountains
  • Une Misére
  • Hatari
  • Cyber
  • Á móti sól
  • Auður
  • Sigurvegari músíktilrauna

Um hljómsveitirnar segir í tilkynningu frá Aldrei fór ég suður:

Hljómsveitina Kolrössu Krókríðandi (síðar Bellatrix) þekkja allir vonandi. Hún sigraði Músiktilraunir 1992 og heimsótti Ísafjörð skömmu síðar en hefur aldrei komið áður á Aldrei fór ég suður. Dimma er vafalaust ein vinsælasta rokkhljómsveit landsins og spilar loks á Aldrei.

Um Jóa Pjé og Króla þarf ekki að fjölyrða enda eitt það vinsælasta á landinu í dag.

Við Vestfirðingar erum afar stoltir af þeim Kötlu og Ásrós í Súg- Dýrfirsku hljómsveitinni Between Mountains sem gaf út frábært myndband á dögunum og gleður það okkur mjög að tilkynna komu þeirra á hátíðina í ár. Eins og flestir vita sigruðu þær Músíktilraunir í fyrra.

Une Misére afrekaði það að vera í 4. sæti á þungarokkshátíðinni Wacken í Þýskalandi í fyrra og skartar trommaranum Benna Bent frá Vöðlum í Önundarfirði.

Hatari var annað árið í röð valið “best live act” í mörgum miðlum sem hlýtur að útleggjast „Bestir á balli”. Það má enginn missa af Hatara.

Cyber inniheldur nokkra meðlimi Reykjavíkurdætra og gáfu þær út hina frábæru plötu Horror fyrir jólin. Þær nefndu sveitina eftir uppáhaldsvaralitnum þeirra úr Mac snyrtivörulínunni.

Á móti sól … vá, hvað getur maður sagt? Loksins! Jebb, þetta eru stórtíðindi! Það var löngu kominn tími á Magna og félaga. Við getum ekki beðið!

Auður er listamannanafn Auðuns Lútherssonar sem hefur vakið gríðarlega athygli fyrir seyðandi R&B tónlist – við hlökkum til að sjá hann á Aldrei-sviðinu.

Loks eru það Sigurvegarar Músiktilrauna sem við vitum svo sannarlega ekkert um á þessari stundu en erum mjög stolt af samstarfi okkar við Músiktilraunir, en síðustu árin hafa sigursveitir tilraunanna heimsótt hátíðina. Sigurvegarar Músiktilrauna verða krýndir helgina fyrir páska og mun því sigursveitin ekki ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur heldur spila á Aldrei fór ég suður nokkrum dögum síðar.

Eins og síðustu ár verður hátíðin haldin í skemmu Kampa við Suðurgötu.

DEILA