„Þetta byrjaði nú óvart,“ segir Stefán Dan Óskarsson líkamsræktarfrömuður á Ísafirði. Í gær lauk hann rekstri Stúdíó Dan þegar kaup Ísafjarðarbæjar á fyrirtækinu gengu í gildi. Stúdíó Dan hóf rekstur fyrir 31 ári. „Ég byrja á að opna nuddstofu og húsnæðið bauð upp á að vera með meiri starfsemi og það varð úr að byrja með líkamsrækt í smáum stíl þannig að þetta byrjaði nú óvart. Svo vatt þetta upp á sig. Fyrstu mánuðina voru nú ekki margir að stunda þetta, hámark tíu á dag. Núna eru að meðaltali 100 manns á dag,“ segir Stefán.
Stúdíóið hefur allan tímann verið í sama húsnæðinu í Hafnarstræti.
Stefán er ekki lagstu í helgan stein. „Ég er nú orðinn 71 árs og ætti að fara að taka því rólega en ég verð með nuddstofuna áfram sem hefur verið rekin sér.“
Það hefur verið langur vinnudagurinn hjá Stefáni í gegnum árin. „Við opnum kortér yfir fimm og það er opið til níu á kvöldin. Það er lokað tvo daga á ári, á jóladag og páskadag. Þetta hefur verið þannig að ég hef opnað klukkan kortér yfir fimm og er til átta og þá fer ég á nuddstofuna, í hina vinnuna.“
Rannveig Hestnes, eiginkona Stefáns, hefur staðið við hlið hans í rekstrinum í öll þessi ár. „Börnin mín unnu hérna líka og síðar barnabörnin þannig að þetta hefur verið sannkallað fjölskyldufyrirtæki,“ segir Stefán.
Efst í huga Stefáns þegar hann lítur til baka yfir farinn veg í rekstri Stúdíó Dan er þakklæti. „Ég vil koma á framfæri þakklæti til allra viðskiptavinanna og þeirra sem hafa staðið í þessu með okkur í gegnum árin. Þetta hefur oft verið erfiður tími, mikil vinna og ýmiskonar áföll, en fyrst of fremst skemmtilegur tími og ég hef kynnst mörgu góðu fólki, bæði viðskiptavinum og starfsfólki,“ segir Stefán Dan Óskarsson.