Von á fimm fjölskyldum frá Sýrlandi og Írak

Fyrir rúmum tveimur árum sendu sveitarfélögin við Ísafjarardjúp frá sér sameiginlega yfirlýsingu um að þau væru reiðubúin til að taka á móti flóttafólki. Síðan hafa tvær fjölskyldur flust til Ísafjarðar og hafa dvalið þar í rúmt ár. Nú hafa fleiri fjölskyldur verið boðnar velkomnar og um miðjan febrúar er von á a.m.k. fimm fjölskyldum sem hafa lagt á flótta frá heimilum sínum í Sýrlandi og Írak og dvalið í flóttamannabúðum. „Fólkinu hefur verið boðið húsnæði í Súðavík og Ísafjarðarbæ og hafa sveitarfélögin fundið hentugar íbúðir fyrir fólkið. Íbúðirnar sem eru flestar í einkaeigu verða búnar húsbúnaði sem sjálfboðaliðar Rauða krossins sjá um að safna saman. Það helsta sem vantar í íbúðirnar eru sófasett, eldhúsborð, stólar og ýmis búsáhöld,“ segir Bryndís Friðgeirsdóttir hjá Rauða krossinum á Ísafirði.

Rauði krossinn leitar nú að sjáflboðaliðum sem vilja aðstoða á einhven hátt, s.s. að safna húsgögnum, standsetja íbúðir, flytja húsgögn á milli svæða, vera vinafjölskyldur eða aðstoða við ýmis viðvik. Þeir sem hafa áhuga, geta haft samband við Bryndísi Friðgeirsdóttur á netfangið bryndis@redcross eða í síma 4563180.

Það eru velferðarráðuneytið og sveitarfélögin sem bjóða fólkinu að koma til Íslands en Rauði krossinn sér um að afla stuðningsaðila og húsbúnaðar fyrir fólkið.

DEILA