Vegurinn milli Ísafjarðar og Súðavíkur verður opnaður innan skamms en hann hefur verið lokaður frá því í gærmorgun vegna snjóflóðahættu. Moksturstæki eru að störfum á hlíðinni. Guðmundur R. Björgvinsson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni á Ísafirði, segir að tvö stór flóð hafi fallið á veginn, úr Djúpagili og Fjárgili og það sé góðs viti að þau séu komin niður. Að auki féllu nokkur minni flóð á veginn. Áfram verður í gildi varúðarstig á veginum.
Guðmundur bendir fólki sem ætlar að keyra Djúp að leggja ekki af stað fyrr en klukkan eitt, hálf-tvö. „Þegar hlíðin opnar tekur einhvern tíma fyrir moksturtæki að fara inn Djúp til móts við tæki sem við höfum innfrá.“