Það eru nokkrar vikur í undirskrift verksamning vegna Dýrafjarðarganga. Tilboð voru opnuð í gær og tilboð Metrostav og Suðurverks var lægst, eða tæpir 8,7 milljarðar króna. Kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar hljóðar upp á 9,3 milljarða króna. „Þetta er viðamikið útboð og það tekur tíma að fara yfir tilboð. Samningar geta líka tekið langan tíma svo þetta eru að lágmarki nokkrar vikur“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar.
Pétur bendir á ekkert hasti á menn við að klára verksamning. „Það er ekki gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist fyrr en á seinnihluta þessa árs miðað við það fjármagn sem er úr að spila svo menn geta farið vandlega yfir tilboðin,“ segir hann.
Minnstu mátti muna að framkvæmdir við Dýrafjarðargöng yrðu slegnar af í ár. Bjarni Benediktsson, þá fjármálaráðherra, lagði fram fjárlagafrumvarp rétt fyrir jól þar sem marglofuðu fjármagni til verksins var skorið inn að beini og ljóst að ekkert yrði af jarðgangagerð í ár að óbreyttu. Í meðferð þingsins var frumvarpið lagfært og fjárlög gera ráð fyrir 1,5 milljarði til verksins í ár.
smari@bb.is