Útsvarstekjur sveitarfélaga jukust um 10,5% milli áranna 2016 og 2017. Þær voru um 178 milljarðar í fyrra en rúmur 161 milljarður 2016. Þetta kemur fram í nýjum tölum Sambands íslenskra sveitarfélaga um staðgreiðslu útsvars árin 2016 og 2017 og er greint frá í Morgunblaðinu í dag. Útsvarið er reiknað sem hlutfall af tekjum manna, öðrum en fjármagnstekjum. Í Ísafjarðarbæ hækkuðu útsvarstekjur nokkuð minna milli áranna 2016-17, eða um 6,3 prósent.
Útsvarið hefur skilað stigvaxandi tekjum á síðustu árum. Þannig skilaði útsvarið tæpum 125 milljörðum 2013 en um 178 milljörðum í fyrra. Það samsvarar 43% aukningu á nafnvirði.