Landssamband veiðifélaga leggjast alfarið gegn áformum norska fyrirtækisins Akvafuture um 20.000 tonna fiskeldi í lokuðum kerfum í Eyjafirði. Þetta kemur örlítið spánskt fyrir sjónir þeirra sem hafa fylgst með umræðum laxeldi síðustu misseri og ár þar sem Landssambandið hefur talað fyrir laxeldi í lokuðum kerfum.
Fram kemur í tilkynningu frá Landssambandi veiðifélaga að eldiskvíar fyrirtækisins hafi verið notaðar í skamman tíma í Noregi og „lítil reynsla komin á hversu fiskheldar þær eru. Sá búnaður sem stendur til að nota hefur ekki verið prófaður við íslenskar aðstæður. Tilgreindur búnaður er aðeins gefinn upp fyrir ölduhæð að 2 metrum og telur Landssambandið að slíkan búnað verði að meta mjög ótraustan við íslenskar aðstæður.”
Að mati sambandsins sé óforsvaranlegt með öllu að ráðast í stórfellt sjóeldi á allt að 10 milljónum laxa í svona búnaði í námunda við helstu laxveiðiár Norður- og Austurlands.