Veðurstofan spáir suðaustanátt á Vestfjörðum í dag, 8-13 m/s. Skúrir eða él síðdegis. Hiti 0 til 5 stig. Í hugleiðingum veðurfræðings segir að skilakerfi valdi óveðrinu sem hefur geisað á suðvesturhorni landsins. Skilakerfið er ættað frá krappri og djúpri lægð, sem hreyfist norðvestur yfir Grænlandshaf. Þegar lægðin nálgast Grænlandsströnd í nótt dregur talsvert úr vindi og á morgun blása fremur hægir vindar með úrkomu í minna lagi.
Á fimmtudag er síðan von á næstu lægð, sem gefur systurlægð sinni ekkert eftir með tilheyrandi stormi og votviðri. Veðurspá helgarinnar er því miður ekki mikið skárri, áfram hvassir vindar og úrkomusamt.
Færð á vegum
Á Vestfjörðum er víða hált eða flughált. Flughálka er í Ísafjarðardjúpi, á Steingrímsfjarðarheiði, á Þröskuldum, í Kollafirði, á Hálfdán, á Innstrandavegi og á Fellsströnd. Þæfingur er á Kleifaheiði.