Vesturbyggð var óheimilt að takmarka akstursþjónustu við fatlaða konu við tiltekina félagsmiðstöð í bænum. Þetta er mat Umboðsmanns Alþingis, sem telur að málsmeðferð sveitarfélagsins og úrskurðarnefndar velferðarmála hafi farið í bága við lög. Hann telur að stjórnvöld verði að taka af allan vafa um rétt fatlaðs fólks til akstursþjónustu. Frá þessu var greint í kvöldfréttum RÚV í gær.
Á undanförnum árum hafa fjölmiðlar fjallað um mál Sigríðar Guðbjartsdóttur og baráttu sonar hennar fyrir því að fá akstursþjónustu fyrir hana að heimili hennar að Láganúpi í Kollsvík, um 60 kílómetra frá Patreksfirði. Þrátt fyrir að Vesturbyggð hafi boðið út akstursþjónustuna í tvígang fékkst ekki viðunandi tilboð að mati sveitarfélagsins. Eftir að málið hafði þvælst í kerfinu fékk Sigríður að endingu akstursþjónustu á félagsheimili aldraðra á Patreksfirði en ekki á aðra staði. Sigríður lést í haust.
Úrskurðarnefnd velferðarmála úrskurðaði á endanum að synjun Vesturbyggðar um frekari akstur stæði. Mæðginin kærðu málið til Umboðsmanns Alþingis sem telur að úrskurðarnefndin hafi ekki tekið nægilega mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um fatlað fólk sem íslensk stjórnvöld hafa innleitt.
Í áliti umboðsmanns kemur fram að úrskurðarnefndin telji að sveitarfélögum sé að meginstefnu falið að ákveða umfang akstursþjónustu í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Umboðsmaður telur það óviðunandi hversu óskýr þessi réttur sé og beinir af þeim sökum þeim tilmælum til félagsmálaráðherra að afmarka betur rétt fatlaðs fólks til akstursþjónustu með nánari og skýrari hætti í lögum.