Aukið fjármagn í vetrarþjónustu

Mokstur á fjallvegum er í biðstöðu.

Fjármagn til vetrarþjónustu á vegum verður aukið um sjötíu og fimm milljónir króna á þessu ári. Samgönguráðherra segir þetta hafa fengist með endurskoðun á reglum um vetrarþjónustu

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra kallaði eftir upplýsingum frá Vegagerðinni um stöðuna, og hefur nú ákveðið að bregðast við henni. „Við erum að taka ákvörðun um að breyta reglum sem hafa ekki verið endurskoðaðar í nokkur misseri en þörfin er brýn. Við ætlum að bæta þjónustu, ekki síst á Suðurlandi en líka á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi. Við ætlum því að auka vetrarþjónustuna um allt land um tæpar 75 milljónir,“ segir Sigurður Ingi í frétt RÚV.

Sigurður Ingi segir að mesta aukningin verði á veginum fyrir austan Vík, þar sem umferðin hefur aukist mest þar. Meðal annarra vega nefnir Sigurður Ingi vegina um Dyrhólaey, Vatnskarðshóla og við Skógafoss, auk nokkurra vega í uppsveitum Suðurlands. Þá verður þjónusta einnig aukin á veginum milli Borgarness og Vegamóta á Snæfellsnesi, við Bíldudal, í Skutulsfirði, Eyjafirði og Svarfaðardal.

DEILA