Helena ráðin framkvæmdastjóri Lýðháskólans á Flateyri

Helena Jónsdóttir.

Stjórn félags um stofnun Lýðháskóla á Flateyri hefur ráðið Helenu Jónsdóttur sálfræðing sem framkvæmdastjóra Lýðháskólans á Flateyri. Helena hefur undanfarin þrjú ár starfað sem verkefnastjóri og ráðgjafi á vegum samtakanna Læknar án landamæra í Afganistan, Suður Súdan, Egyptalandi og Líbanon. Áður var hún m.a. meðeigandi og starfandi sálfræðingur hjá Kvíðameðferðarstöðinni, framkvæmdastjóri hjá Glitni og framkvæmdastjóri hjá Kaupþingi. Helena hefur auk þess starfað sem ráðgjafi hjá Capacent og PriceWaterhouseCoopers og sinnt  rannsóknum og kennslu í sálfræði og markaðsfræði við Háskóla Íslands. Þá hefur hún unnið með ungu fólki í vanda á vegum Reykjavíkurborgar og félagsmálaráðuneytisins.

Helena lauk BA gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 1996 og Cand.Psych. prófi frá sama skóla árið 2010. Hún varð löggiltur verðbréfamiðlari árið 2006.

Framkvæmdastjóri Lýðháskólans á Flateyri undirbýr starfsemi skólans en sérstök fagráð hafa unnið að því að móta námsframboð skólans á þremur sviðum, sjálfbærni og umhverfismálum, kvikmyndavinnu og tónlistarsköpun. Framkvæmdastjóri mun vinna að skipulagi skólans og útfærslu og þróun námsframboðs auk þess að vinna verkefni fyrir Fræðslumiðstöð Vestfjarða um lýðháskóla almennt samkvæmt samningi við mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Starfsstöð framkvæmdastjóra er á Flateyri og mun Helena þegar hefja störf.

Runólfur Ágústsson stjórnarformaður félags um stofnun Lýðháskóla á Flateyri segir mikinn feng af ráðningu Helenu fyrir skólann og samfélagið: „Ráðning þessa öfluga framkvæmdastjóra fyrir skólann er fyrsta skrefið í þeirri mennta- og þekkingaruppbyggingu sem við sjáum fyrir okkur að starf lýðháskóla hafi í för með sér bæði á Flateyri og svæðinu öllu. Við erum bæði glöð og bjartsýn við þessi tímamót og hlökkum til þess að vinna með Helenu að því að þetta mikilvæga verkefni verði að veruleika“

Helena segir það ekki hafa verið á dagskrá að flytja heim þar sem aðkallandi verkefni á vegum Lækna án landamæra hafi átt hug hennar allan síðustu 3 ár. „Það hefur lengi verið draumur minn að búa á Flateyri og fá tækifæri til þess að koma að uppbyggingu á atvinnu og námsmöguleikum á svæðinu. Ég hef raunar verið eins og grár köttur á Flateyri síðustu 10 ár og þekki þar orðið hvern krók og kima. Það var því auðveld ákvörðun að slá öðrum verkefnum á frest og játast þessu gríðarlega spennandi verkefni. Flateyri er einstakur kostur fyrir svona skóla og þýðing hans verður mikil fyrir byggðarlagið og svæðið í heild. Að fá að leiða þetta verkefni og þann öfluga hóp af fólki sem að undirbúningi þess hefur staðið er mér sönn ánægja og mun ég leggja mitt af mörkum til að vegur þess verði sem mestur.”

DEILA