Háafell ehf., dótturfélag Hraðfrystihússins – Gunnvarar hf. í Hnífsdal, er að slátra regnbogasilungi upp úr síðustu sjókví sinni í Ísafjarðardjúpi. Fyrirtækið er tilbúið með laxaseiði til að setja út í vor en hefur ekki leyfi til þess. HG hefur verið með fisk í kívum i Djúpinu samfellt síðan 2002, fyrst þorsk og síðar regnbogasilung. Kristján G. Jóakimsson, verkefnastjóri fiskeldis hjá HG, er í ítarlegu viðtali í Morgunblaðinu í dag.
„Staðan hjá okkur er sú að við erum að slátra upp úr seinustu regnbogasilungskvínni og er áætlað að því verði lokið fljótlega í febrúar. Samkvæmt áætlunum út frá lögbundnum afgreiðslutíma stofnana hefðum við átt að vera komnir út í sjókvíar með lax en þar sem leyfismál hafa dregist úr hófi höfum við ekki getað sett laxaseiðin okkar frá Nauteyri út og þurfum að selja útsæðið okkar í burtu,“ segir Kristján í viðtalinu.