Nú styttist í umsóknarfrest um Eyrarrósina góðu en tekið er við umsóknum til 15. janúar. Eyrarrósin er viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á starfssvæði Byggðastofnunar. Markmið Eyrarrósarinnar er að beina sjónum að og hvetja til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar, á sviði menningar og lista. Byggðastofnun, Air Iceland Connect og Listahátíð í Reykjavík hafa staðið saman að verðlaununum frá upphafi, eða frá árinu 2005.
Umsækjendur um Eyrarrósina geta meðal annars verið stofnun, tímabundið verkefni, safn eða menningarhátíð. Valnefnd, skipuð fulltrúum Byggðastofnunar, Listahátíðar í Reykjavík og Flugfélags Íslands ásamt einum menningarfulltrúa á starfssvæði Byggðastofnunar tilnefnir þrjú verkefni og hlýtur eitt þeirra Eyrarrósina ásamt veglegum peningaverðlaunum. Hin tvö tilnefndu verkin hljóta einnig peningaverðlaun.
Eyrarrósin hefur tvívegis komið í hlut vestfirskra menningarverkefna. Árið 2007 fékk Strandagaldur á Hólmavík verðlaunin og árið eftir var komið að Aldrei fór ég suður tónlistarhátíðinni.