Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra segir of snemmt að segja til um það hver áhrif breytinga á veiðigjöldum verða þar sem frumvarpið liggi ekki fyrir. Innan ríkisstjórnarflokkanna er rætt um að breyta veiðigjaldakerfinu og tengja þau frekar afkomu útgerða. Líkur eru á að veiðigjöld smærri og meðalstórra útgerða lækki við þetta.
Sjávarútvegsráðherra sagði Speglinum í gær að einhug um þær áherslur um veiðigjöldin sem nefndar séu í stjórnarsáttmálanum. „Eðlilega þegar við förum að færast nær því með hvaða hætti við ætlum að útfæra þetta þá kunna að koma upp skiptar skoðanir og það er ekkert óeðlilegt með það. Ég hef enga trú á öðru en að við munum lenda þessu með farsælum hætti,“ sagði Kristján Þór.
Ætlunin er að láta veiðigjöldin standa, annars vegar, undir föstum kostnaði ríkisins af fiskveiðistjórnunarkerfinu og að ætla ríkinu einhvern hlut í þeirri arðseminni sem af greininni verður. „Við megum ekki gleyma því í umræðunni um gjaldtöku af sjávarútveginum, við Íslendingar, að við erum ein örfárra þjóða í veröldinni sem höfum þá stöðu að láta þessa grein greiða til ríkiskassans í stað þess að hún sé niðurgreidd eins og víðast hvar annars staðar,“ sagði Kristján Þór.
Að mati ráðherra þarf gjaldtakan að vera miklu nær í tíma en nú er. „Nú er verið að leggja gjöld á tekjur útgerðar fyrir 20 mánuðum rúmum sem er algjörlega óásættanlegt þegar tekið er tillit til sveiflna í afurðaverði og breytum sem útgerðin er verulega háð.“