Árið 2017 er í 10-12 sæti á því sem Trausti Jónsson veðurfræðingur kallar Stykkishólmshitalínuritið. Veðurmælingar á Íslandi hófust í Stykkishólmi og nær línuritið aftur til ársins 1798 og fram til 2017, að vísu með töluverðri óvissu fyrstu 30 árin.
Árið 2016 var það hlýjasta á öllu tímabilinu, en það nýliðna, 2017 ívið neðar og endaði í 4,93 stigum, 10. til 12. hlýjasta sæti tímabilsins alls. Trausti skrifar á vefsíðu sína að væri árshitinn algjörlega tilviljanakenndur mætti búast við svo hlýju ári á aðeins um 20 ára fresti. „En við upplifum nú hlýtt tímabil, flest ár eru hlý miðað við það sem áður var og er einfaldast að kenna það almennum hlýindum á heimsvísu vegna aukningar gróðurhúsaáhrifa – þó eitthvað fleira kunni að koma við sögu hér á landi – svosem eins og hagstæðar vindáttir hin síðari ár.“
Trausti telur líklegast að hlýindin malli hægt og bítandi áfram upp á við með sveiflum frá ári til árs en mögulegt að eitthvað kólni um sinn verði vindáttir úr vestri eða norðri algengari en verið hefur á undanförnum árum. Sömuleiðis er ekki ólíklegt að hafís sýni sig að minnsta kosti á einu skeiði til viðbótar með viðeigandi kulda þrátt fyrir norðurslóðahlýnun og almenna rýrnun hafísbreiðunnar.
Svo er líka mögulegt að gróðurhúsahlýnunin hafi ekki öll skilað sér hér á landi og að þrep upp á við (0,5 til 1,0 stig) leggist óvænt yfir á næstu árum eða áratugum