Í gær fór fram útnefning á íþróttamanni Ísafjarðarbæjar árið 2016 í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði og var þar sundkonan Kristín Þorsteinsdóttir valin íþróttamaður Ísafjarðarbæjar úr hópi framúrskarandi íþróttafólks sveitarfélagsins. Er þetta fjórða árið í röð sem Kristín hampar titlinum, en hún hefur verið ein öflugasta sundkona landsins um árabil og er í sínum flokki ein af fimm bestu sundkonum heims. Í umsögn um Kristínu var meðal annars sagt: (Kristín) hefur með vinnusemi og ástundun náð markmiðum sínum, hún hefur verið fremsti sundmaður í sínum flokki undanfarin ár. Afrek á árinu eru Evrópumet í 50metra skriðsundi og 25m baksundi, Evrópu og heimsmet í 25m skriðsundi. Kristín tók þátt í DSISO í Flórens í 50metra laug og var þar í 4 sæti í 100 skrið, þar hampaði hún 2.sæti í úrslitum í 50m flugsundi og 5.sæti í úrslitum í 50m baksundi. Einnig tók Kristín þátt í Íslandsmóti IF og kom hún heim með 9 gull og eitt Evrópumet í 50 metra skriðsundi.
Kristín Þorsteinsdóttir hefur stundað sundæfingar hjá Ívari í 16 ár og ávallt gert það af miklum áhuga og einbeitingu er segir í tilnefningu félagsins. Þar segir jafnframt: Kristín er létt í lund, góður liðsfélagi og er ávalt prúð í framkomu. Undanfarin ár hefur þessi áhugi og einbeiting á æfingunum skilað henni góðum árangri á mótum bæði heima og erlendis og er hún í dag fremsti íslenski sundmaðurinn í sínum flokki og ein af topp fimm bestu á alþjóðavísu. Með íþróttamiðað lífsmottó að leiðarljósi „Æfingin skapar meistarann en gleði og samvera er gulls ígildi“ er Kristín þannig fyrirmynd annarra íþróttamanna og verðugur fulltrúi Ívars.
Í hófinu var einnig valinn efnilegasti íþróttamaður ísafjarðarbæjar 2016 og var þar fyrir valinu blakkonan Auður Líf Benediktsdóttir. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Auður Líf stundað blak um árabil, en hún hefur æft og spilað íþróttina frá 7 ára aldri. Hún á fjölmarga Íslandsmeistaratitla í yngri flokkum og er nú lykilleikmaður með meistaraflokki Vestra í blaki. Á árinu 2016 var hún valin í U17 landsliðið í blaki þar sem hún stóð sig sérlega vel. Þar að auki spilaði hún og keppti í strandblaki á Möltu síðasta sumar með góðum árangri.
Þá voru einnig veitt hvatningarverðlaun og voru þau veitt Körfuboltabúðum Vestra. Körfuboltabúðirnar hafa verið starfræktar frá árinu 2009, fyrst undir nafni KFÍ en eftir sameiningu Íþróttafélaga árið 2016 undir nafni Vestra.
Í umsögn segir að síðastliðin 3 ár hafi körfuboltabúðirnar verið rómaðar fyrir faglegt og frábært starf. Að búðum hafi komið tugir manna sem hafa séð um skipulagningu og uppsetningu þeirra. Körfuboltabúðirnar fá gífurlega góða einkunn meðal þátttakenda, foreldra og forráðamanna um allt land og síðustu ár hafa færri komist að en vildu, sem er merki um gæði og vinsældir búðanna.
annska@bb.is