Fossadagatalið fáanlegt á Ísafirði

Gullfossar Stranda heitir dagatal þeirra Tómasar Guðbjartssonar og Ólafs Más Björnssonar og verður það til sölu í versluninni Götu sem er til húsa í Bræðraborg. Allir alþingismenn, sveitarstjórnamenn á Vestfjörðum og forsvarsmenn Vesturverks og Landsvirkjunar hafa fengið eintak af dagatalinu, sem og allir íbúar Árneshrepps. Fyrsta upplag dagatalsins seldist upp á fyrsta degi.

Þeir félagar, Tómas og Ólafur, hafa látið sig málefni náttúrunnar varða og berjast hatrammlega á móti Hvalárvirkjun við mismikinn fögnuð þeirra er fjórðunginn byggja. Til dæmis taldi Hafdís Gunnarsdóttir þáverandi varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu Tómas hafa tekist „móðga heilan fjórðung í viðtali“. Í athugasemd við fréttina á bb.is tjáir þingmaður Framsóknarflokksins, Halla Signý Kristjánsdóttir og bendir á að hún sé nú stödd á suðvestur horni landsins og segist þar „sjá mannvistarleifar, hvort sem það er byggð eða atvinnuuppbygging, byggðin teygir og treður niður fallegar útivistarperlur“

Í september birtu þeir rafrænt fossadagatal með daglegum myndum af fallegum fossum á upptökusvæði Hvalárvirkjunnar.

Allur ágóði af útgáfunni rennur til Rjúkanda, samtaka um verndun náttúru og menningarverðmæta í Árneshreppi á Ströndum.

bryndis@bb.is

DEILA