Á annan tug umsókna um starfs- og rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi er í vinnslu hjá Matvælastofnun og Umhverfisstofnun. Þrjú leyfanna verða væntanlega gefin út á næstu vikum og búist er við að 5-7 leyfi til viðbótar verði gefin út á fyrri hluta næsta árs.
Leyfin sem lengst eru komin í vinnslu eru stækkun hjá Arctic Sea Farm í Dýrafirði og leyfi sama fyrirtækis og Arnarlax í Patreks- og Tálknafirði, að því er fram kemur í umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í gær. Þar kemur meðal annars fram að sex ár eru síðan Arctic Sea Farm hóf að vinna í stækkun í Dýrafirði en í reglugerð um fiskeldi kemur fram að umsóknir um starfsleyfi og rekstrarleyfi skuli afgreiða innan sex mánaða frá því þær berast. Hafa ber í huga að eftir atvikum þurfa umsóknir um fiskeldisleyfi að fara í umhverfismat og engar kvaðir eru á Skipulagsstofnun að afgreiða umsóknir um umhverfismat á tilteknum tíma.
smari@bb.is