Verulega dregið úr hagvexti

Hagvöxturinn á þriðja ársfjórðungi þessa árs er sá minnsti sem mælst hefur frá því á síðasta ársfjórðungi 2015. Hagfræðideild Landsbankans segir að nýjustu tölurnar bendi til þess að verulega sé að hægjast á vexti hagkerfisins. Hagvöxtur mældist 3,1% á þriðja ársfjórðungi borið saman við sama fjórðung árið áður samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Þessi vöxtur kemur í kjölfar 3,4% vaxtar á öðrum fjórðungi og 5,6% á fyrsta fjórðungi. Tölurnar virðast því benda til þess að verulega sé tekið að hægja á vexti hagkerfisins en hagvöxtur mældist 7,4% á síðasta ári. Hagvöxturinn á þriðja fjórðungi nú er sá minnsti í tvö ár. Í spá Hagfræðideildar Landsbankans frá því í nóvember var gert ráð fyrir að hagvöxtur verði 5,5% á þessu ári. Hagvöxtur á fyrstu þremur fjórðungum ársins nemur 4,3% og er hann því minni en Landsbankinn spáði fyrir árið í heild.

smari@bb.is

DEILA