Vaskleg framganga slökkviliðsmanna og annarra sem komu að slökkvistörfum á höfninni á Ísafirði aðfararnótt laugardags bjargaði því sem bjargað varð í stærsta bruna á Ísafirði í 30 ár, eða frá því Ísafjarðarkirkja brann. Fljótlega varð ljóst húsnæði skipaþjónustu Hraðfrystihússins – Gunnvarar hf. yrði ekki bjargað og miðaðist slökkvistarf við að eldurinn næði ekki að læsa sig í svonefndu „Rauða húsi“ sem einnig er í eigu HG.
Rauða húsið á sér merkilega sögu sem Kristján G. Jóhannsson, stjórnarformaður HG, hefur tekið saman.
Húsið var reist rétt eftir 1900 á Stekkeyri um tveimur km innan við Hesteyri af norskum hvalveiðimönnum sem þar voru með mikla starfsemi. Húsið var íbúðabraggi fyrir starfsfólk hvalveiðistöðvarinnar og hýsti allt 100 manns. Eftir að hvalveiðar voru bannaðar á Íslandsmiðum var farið að verka síld á Stekkeyri og um miðjan þriðja áratuginn kaupir Kveldúlfur, fyrirtæki Thorsarana, verksmiðjuna og vinnur þar síld fram til 1940.
Upp úr 1950 var lagður stóreignaskattur m.a. á fyrirtæki og var leyfilegt að greiða hann með fasteignum samkvæmt fasteignamati. Kveldúlfur greip tækifærið og greiddi hluta skattsins með því að selja ríkissjóði síldarverksmiðju sína á Stekkeyri, sem staðið hafði ónotuð á annan áratug og eftir því lítil raunveruleg verðmæti í verksmiðjunni.
Í október 1954 komu saman fimm Ísfirðingar og samþykktu að stofna hlutafélag sem annaðist útgerð vélbáta og fiskverkun og fékk félagið nafnið Fiskiðjan hf. Næstu áratugina áttu fimmmenningarnir eftir að marka djúp spor í atvinnusögu Ísafjarðar en þetta voru bræðurnir Jóhann og Þórður Júlíussynir, Ásgeir Guðbjartsson og bræðurnir Marías og Guðmundur Guðmundssynir.
Fljótlega var ljóst að Fiskiðjan þyrfti betra húsnæði undir fiskverkunina, en það hafði verið í leiguhúsnæði í svokölluðu Vöskunarhúsi rétt ofan Bæjarbryggjunnar. Íbúðabragginn á Stekkeyri, sem nú var í eigu ríkissjóðs, þótti hentugur og festi Fiskiðjan hf. kaup á honum. Þórður Júlíusson fór norður með nokkra menn og rifu þeir húsið niður spýtu fyrir spýtu á nokkrum dögum. Bátarnir Gunnvör ÍS og Guðbjörg ÍS fóru á milli vertíða árið 1956 og náðu í efnið, síðan var húsið endurbyggt í aðeins öðru formi á hafnarsvæðinu á Ísafirði.
Húsið stendur enn á sama stað og er nú geymsluhúsnæði fyrir útgerð Hraðfrystihússins – Gunnvarar hf.
smari@bb.is