Kalt og bjart um helgina

Veðurstofan spáir hæg austlægri átt og léttskýjuðu á Vestfjörðum í dag, en suðvestan 3-8 m/s og skýjað annað kvöld. Frost 3 til 8 stig. Í hugleiðingum veðurfræðings segir að norðanáttir verði ríkjandi á landinu um helgina með fremur björtu og köldu veðri, en éljum eystra. Spáð er skammvinnri suðaustanátt með slyddu eða snjókomu á þriðjudag og hlýnar þá í bili, en annars áfram norðanáttir og talsvert frost. Í stuttu máli er því ekki að sjá nein almennileg hlýindi á næstunni.

Á Vestfjörðum er hálka eða snjóþekja á flestum vegum. Ófært er norður í Árneshrepp.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á sunnudag:

Hvöss norðanátt austast á landinu, en mun hægari vindur vestantil. Él norðan- og austanlands, en léttskýjað að mestu sunnan- og vestanlands. Frost 0 til 10 stig, kaldast inn til landsins, en mildast við austurströndina.

Á mánudag:

Minnkandi norðanátt og dregur úr éljum fyrir austan, en hægviðri og bjart vestantil. Kalt í veðri. Snýst í vaxandi suðaustanátt og þykknar upp suðvestantil um kvöldið og dregur úr frosti.

Á þriðjudag:

Suðaustlæg átt og snjókoma eða slydda og hiti kringum frostmark, en úrkomulítið norðan- og austanlands og frost 1 til 7 stig.

Á miðvikudag og fimmtudag:

Útlit fyrir norðaustlæga átt með éljum víða um land, en yfirleitt þurrt og bjart um landið suðvestanvert. Frost um allt land.

DEILA