Vestfirðingar fagna aldarafmæli með metnaðarfullri dagskrá

Hrafnseyri í Arnarfirði.

Fyrir ári skipaði Alþingi nefnd til að undirbúa hátíðahöld í tilefni hundrað ára afmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands árið 2018. Afmælisnefnd leitaði til landsmanna eftir tillögum að verkefnum á dagskrá afmælisársins. Hundrað verkefni voru valin úr 169 innsendum tillögum. Þau voru tilkynnt í Safnahúsinu við Hverfisgötu í dag. Fjögur vestfirsk verkefni hlutu styrk frá afmælisnefndinni.

Safnahúsið á Ísafirði fær 700 þúsund króna styrk vegna ráðstefnu og sýningar næsta sumar. Sýningin fjallar um heimsókn hóps fólks frá Angmagssalik á austurströnd Grænlands til Ísafjarðar árið 1925 og á hún að verða liður í að auka samskipti þjóðanna.

Hópurinn sem kom til Ísafjarðar 1925 dvaldi í fáeina daga í bænum, nokkrir gestanna sýndu listir sínar á kajökum á höfninni og heimamenn kynntu gestunum allt það helsta sem þótti markvert. Þessi heimsókn markar fyrstu tengsl Íslendinga og Grænlendinga á síðari tímum. Á ráðstefnunni er ætlunin að taka fyrir margvíslegar hliðar á tengslum Íslands og Grænlands, m.a. hvernig stjórnskipunarleg staða þeirra hefur verið svipuð og ólík í gegnum aldirnar og á hvaða hátt reynsla Íslendinga sem fullvalda þjóðar getur nýst Grænlendingum í leit þeirra að fullveldi.

Menningarsetrið á Hrafnseyri fær 600 þúsund króna styrk til að minnast aldarafmælis fullveldis og sjálfstæðis Íslands með tónverki eftir ísfirska tónskáldið Halldór Smárason. Tónverkið verður frumflutt verður á Hrafnseyri á þjóðhátíðardag Íslands þann 17. júní 2018. Verkefnið verður 10 mínútur að lengd og verður flutt af „Strokkvartettinum Sigga“ sem stofnaður var árið 2012.

Verkefnið Strandir 1918 fær 500 þúsund króna styrk til að setja upp sögusýningu í Sauðfjársetrinu á Ströndum. Áhersla verður lögð á að nýta persónulegar heimildir Strandamanna á sýningunni, sendibréf, dagbækur, sjálfsævisögur, minningarþætti og það litla sem til er af ljósmyndum af svæðinu frá fyrstu áratugum 20. aldar við hönnun og uppsetningu. Í tengslum við sýninguna og fullveldisafmælið verða einnig skipulagðir þrír viðburðir haustið 2018 með þátttöku sérfræðinga á sviði þjóðfræði, sagnfræði, bókmenntafræði og náttúruvísinda. Náttúrubarnaskólinn verður með innlegg á dagskránni og leitað verður samstarfs við Grunnskólann á Hólmavík.

Sunnukórinn á Ísafirði er elsti starfandi blandaði kór á Íslandi, hefur verið starfandi hartnær alla fullveldistíð Íslands og komið víða að viðburðum tengdum fullveldissögu Íslands. Nú hyggst Sunnukórinn setja upp dagskrá með tónlist tíðarandans sem lifði með þjóðinni þetta 100 ára tímabil og fær til þess 500 þúsund króna styrk. Við dagskrána verði fléttað söguskýringu með frásögnum og myndefni sem tengjast fullveldinu og dagskrárefninu. Hver áratugur verður teiknaður upp í tónum og tali. Auk Sunnukórsins verða nemendur og barnakórar Tónlistarskóla Ísafjarðar þátttakendur í dagskránni.

DEILA