Ég bið væntanlega lesendur þessa greinarkorns afsökunar á enskri fyrirsögn, sem á íslensku mundi útleggjast eitthvað á þessa leið: Samkaup – af hverju enska? Stafar þetta af því að mér kom ekki önnur fyrirsögn í hug þegar ég hugsaði til merkinga sem komið var fyrir fyrr á árinu utan á húsnæði verslunarinnar Nettó, sem Samkaup hf. reka í miðbæ Ísafjarðar, en þar stendur stórum áberandi stöfum á tveimur hliðum hússins „Nettó“ og þar fyrir neðan „DISCOUNT SUPERMARKET”.
Lengi hélt ég að áletrunum á íslensku yrði bætt við, en enn bólar ekki á þeim. Væntanlega er þessi ágæta verslun þó ekki síst ætluð íbúum á Ísfirði og nágrenni. Flestir eiga þeir íslensku að móður-máli, nota íslensku í samskiptum sínum og einhver hluti þeirra sem skilur ekki vel aðrar tungur. Merkingar innanhúss í versluninni eru flestar á íslensku og einnig er verslun Samkaupa í Bolungarvík, sem ber hið ágæta íslenska nafni “Kjörbúðin,“ eingöngu með merkingar á íslensku að utan en enga ensku þar að sjá. Er undirrituðum ekki ljóst hverju þetta misræmi sætir í málnotkun milli staða og flokka verslana sem Samkaup reka og því ekki að neita að þessi notkun enskunnar á Ísafirði fer svolítið fyrir brjóstið á mér. Veit ég að það á við um fleiri, nú þegar háð er hörð barátta gegn þungri sókn alþjóðamálsins.
Með fjölgun erlendra gesta á Ísafirði er auðvitað lítið við því að segja að vakin sé athygli á þjónustu sem hér er í boði á máli sem meirihluti þeirra skilur. Hitt er miður þegar ekki er talin ástæða til að vekja athygli á henni á tungu íbúa hér.
Því leyfi ég mér að spyrja: Hvað veldur því að íslenskan fær svo lítið rými á útveggjum verslunarinnar á Ísafirði? Er verið að fylgja þróun, sem því miður virðist fara vaxandi hérlendis, að nefna allt og merkja á ensku, hvort sem um er að ræða þjónustufyrirtæki, verslanir eða flugfélög og talið óþarfi að hafa heiti þeirra á íslensku þar sem margir, ekki síst unga fólkið, skilur ensku vel? Er verið að fylgja fordæmi ameríska verslunarrisans Costco, sem lítt virðist skeyta um íslenskuna í utanhússmerkingum sínum? Er Nettó e.t.v. hluti af alþjóðlegri keðju sem mælir fyrir um að ytri merkingar og málnotkun skuli vera eins alls staðar þar sem verslun undir nafni hennar starfar – eða er því e.t.v. öfugt farið að Samkaup áforma stofnun alþjóðlegrar keðju með samræmdum merkingum á ensku og byrjar hér á Íslandi?
Líklega verður „Nettó“ að teljast íslenskt orð en sé reynt að þýða orðin „Discount Supermarket“ á íslensku virðast mér orðin lágvöruverðsverslun eða lággjaldaverslun ná því nokkuð vel og vel við hæfi að merkja verslanir sem starfa undir heitinu Nettó öðru hvoru þessara orða ásamt enskunni. Þykir það e.t.v. ekki henta?
Þær ágætu verslanir sem reknar eru undir nafninu Nettó eru víst merktar með svipuðum hætti og hér er lýst víðar um land og þessar spurningar því ekki bundnar við Ísafjörð einan. Ég vænti þess að skýringar á þeirri notkun á ensku sem hér er færð í tal verði birtar hér á þessum vettvangi áður en mjög langt um líður. Jafnframt spyr ég hvort við í hópi þeirra heimamanna hér á Ísafirði og nágrenni sem viljum veg íslenskunnar sem mestan getum með einhverjum hætti lagt lóð okkar á vogarskálarnar svo móðurmálið fái einnig notið sín á útveggjum verslunarinnar?
Ísafirði, í desemberbyrjun 2017.
Jónas Guðmundsson, íbúi á Ísafirði.