Arnarlax hf. er með til skoðunar að reisa seiðaeldisstöð í Borgarfirði, nánar tiltekið í næsta nágrenni við Mjólkárvirkjun. Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax, segir að fyrirtækið sé með fleiri staðsetningar til skoðunar. Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar tók fyrir erindi Arnarlax á síðasta fundi sínum, en færa þarf veglínur í og við Mjólká eigi áformin að verða að veruleika. Víkingur segir að Arnarlax hafi skoðað þetta með Orkubúi Vestfjarða sem á Mjólkárvirkjun og Vegagerðinni. Það er ljóst að á næstu árum þarf fyrirtækið að auka seiðaframleiðslu. „Við þurfum að gera það til að geta haldið áfram að byggja upp fyrirtækið, en hvort seiðaeldistöð verði þarna eða annars staðar verður að koma í ljós,“ segir Víkingur.
Í dag framleiðir Arnarlax seiði í Tálknafirði og á Þorlákshöfn.