Vaktavinna er fremur algeng á Íslandi í samanburði við önnur Evrópulönd en árið 2016 unnu 26,1 prósent launþega á Íslandi vaktavinnu, sem var níunda hæsta hlutfallið í Evrópu og 7,6 prósentustigum yfir meðaltali Evrópusambandsríkjanna. Hlutfall launþega í vaktavinnu hefur hækkað frá 2008 þegar það var 20,6 prósent. Ekki var munur á körlum og konum árið 2016.
Vaktavinna var langalgengust í yngsta aldurshópnum en árið 2016 voru 55,8 prósent launþega á aldrinum 16–24 ára í vaktavinnu. Því næst kom aldurshópurinn 25–34 ára með 25,6 prósent. Ekki var tölfræðilega marktækur munur á hópum á aldursbilinu 35–64 ára. Innan þeirra hópa var hlutfallið sem vann vaktavinnu á bilinu 17,7 prósent til 18,5 prósent. Hlutfallið var lægst á meðal fólks 65 ára og eldra. Þá hefur hlutfall launþega í vaktavinnu aukist mest í tveimur yngstu aldursbilunum frá árinu 2008, úr 37,4 prósent á meðal fólks 16–24 ára og úr 18,7 prósent á aldursbilinu 25–34 ára.
Launþegar með háskólamenntun voru ólíklegri til að vinna vaktavinnu en launþegar með minni menntun. Árið 2016 voru um 11% launþega 25 ára og eldri með háskólamenntun í vaktavinnu. Hlutfallið var hæst á meðal þeirra sem höfðu lokið framhalds- eða starfsnámi, eða 27,5 prósent, og hafði hækkað umtalsvert frá 2008, úr 19,6 prósent. Þeir launþegar sem aðeins höfðu lokið grunnnámi og unnu á vöktum voru 21,8 prósent.