Reykhólahreppur hefur kynnt vinnslutillögu um breytingu á aðalskipulagi vegna breyttar legu á Vestfjarðavegi nr. 60. Vegagerðin óskaði eftir skipulagsbreytingunni vegna fyrirhugaðar vegagerðar í Gufudalssveit, vegagerðar sem oftast er kennd við Teigsskóg í Þorskafirði.
Markmið breytingarinnar er að auka umferðaröryggi á svæðinu með öruggari og burðarmeiri vegi sem og fækkun einbreiðra brúa. Breytingin er í samræmi við markmið gildandi aðalskipulags um vegi, en þar segir:
„Leitað verði hagkvæmustu lausna í vegagerð og stuðlað að umferðar- og rekstraröryggi og samtengingu byggðar“.
Sveitarstjórn Reykhólahrepps er með tvær leiðir til skoðunar, annars vegar veglínu Þ-H sem liggur um Teigsskóg og hins vegar veglínu D2 sem liggur í jarðgöngum undir Hjallaháls. Á þessu stigi liggur ekki alveg ljóst fyrir hvor leiðin verði fyrir valinu og eru því báðar tillögur sýndar á uppdrætti á meðan ákvörðun liggur ekki fyrir. Þegar tillagan verður auglýst þá verður einungis ein leið sýnd.
Í greinargerð með vinnslutillögunni segir að Reykhólahreppur er sammála niðurstöðu Vegagerðarinnar í matsskýrslu og telur leið Þ-H besta kostinn. Hún er þó ekki sú leið sem hefur minnst neikvæð áhrif á umhverfið. Niðurstaða mats á umhverfisáhrifum er að leið D2 hefur minni neikvæð áhrif á umhverfið en er mun dýrari í framkvæmd.
► Hér má lesa vinnslutillöguna (PDF niðurhal)

smari@bb.is