Guðmundur Ingi Guðbrandsson tók við lyklavöldum í umhverfisráðuneytinu í morgun. Guðmundur er utanþingsráðherra en hann hefur starfað sem framkvæmdastjóri Landverndar. Málaflokkur ráðuneytisins er stór og hefur snertifleti á mál sem Vestfirðingar hafa sett á oddinn. Í frétt á vef Morgunblaðsins er Guðmundur spurður um ýmist hitamál, fiskeldi meðal annars nefnt og hvernig nýjum ráðherra hugnist að takast á við þau mál. „Mér hugnast það ágætlega,“ svarar Guðmundir Ingi og bætir við: . „Ég held að þarna þurfi að fara að mikilli gát til þess að passa áhrifin á sérstaklega villta laxastofna og það þarf að vinna málið útfrá því; að gæta að þeirri auðlind okkar þegar verið er að huga að þróun fiskeldis á Íslandi.“
Í vor sendi Landvernd frá sér eindregna ályktun þar sem stjórnvöld voru krafin um að banna laxeldi á frjóum laxi í sjó. Í ályktuninni stóð meðal annars að áhættan sem fylgir stórauknu laxeldi í sjó hér við land, og þeim aðferðum sem hér eru notaðar, sé geigvænleg og óboðleg fyrir íslenska náttúru.
smari@bb.is