Snjóflóð féll á varnargarðinn á Flateyri

Starfsmaður Snjóflóðasetursins skoðar aðstæður.

Við könnun ummerkja um snjóflóð sem féllu í snjóflóðahrinu á Vestfjörðum í síðustu viku kom í ljós að nokkuð stórt flóð hefur fallið úr Innra-Bæjargili á ytri væng varnargarðsins ofan Flateyrar. Flóðið sveigði á leiðigarðinum og rann langleiðina niður með honum. Á vef Snjóflóðaseturs Veðurstofunnar segir að líkt og í mörgum öðrum flóðum í þessari snjóflóðahrinu þá var neðri hluti tungunnar ekki efnismikill. Líklega var flóðið mjög loftblandað eins og gjarnan er þegar snjórinn sem fer af stað er þurr og kaldur og flóðið hrífur ekki með sér mikinn snjó á leið sinni niður fjallshlíðina. Slík flóð skilja ekki eftir sig efnismikla tungu en geta farið hratt yfir og eyðileggingarmátturinn verið mikill. Flóðið úr Bæjargili reif með sér grjót, m.a. nokkra stóra hnullunga, og braut greinar. Ummerki um flóðið má sjá á garðinum og vantaði um 4 m upp á garðtoppinn þar sem það náði hæst. Ekki er vitað nákvæmlega hvenær flóðið féll en líklega var það um miðja síðustu viku.

Brotnar trjágreinar á varnargarðinum.

smari@bb.is

DEILA