Þingeyrarakademían tekur sterklega undir með þeim sem segja að gera eigi eldra fólki mögulegt að halda heimili eins lengi og það óskar og getur. Það er öllum til heilla. En til þess þarf vel skipulagða heimilishjálp sem dugar. Þar á enginn að vera útundan.
Segjum sem svo, að 500 manns yrðu ráðnir í fullt starf til að styðja við aldraða á heimilum þeirra vítt og breytt um landið, í viðbót við þá starfsmenn sem fyrir eru. Ef reiknað væri með 10 milljónum kr. á hvern starfsmann í launum og launatengdum gjöldum á ári, mundi það þýða 5 milljarða útgjöld. Hluti af þessum fjármunum skilar sér aftur strax í ríkis-og sveitarsjóði með sköttum.
Það liggur í augum uppi að með þessu móti þarf færri biðsali fyrir gamla fólkið. Það kostar mikla fjármuni að reisa okkar góðu elli-og hjúkrunarheimili. Þá er rekstrarkosnaðurinn eftir sem oft er erfiðasti hjallinn. Tillaga okkar mun spara ríki og sveitarfélögum stórfé og allir ánægðir. Ekki síst þeir sem þurfa að deila herbergi með bláókunnugu fólki. Það er heitasta ósk margra að geta verið sem lengst í eigin híbýlum á ævikvöldinu. Það er ekkert annað en heilbrigð skynsemi að verða við þeirri ósk. Hlustum á starfsfólk Landsspítalans og landlækni og framkvæmum þetta eins og menn!
Hvað er Þingeyrarakademían?
Þingeyrarakademían er stór hópur spekinga á öllum aldri sem stundar morgunsund og heita pottinn á Þingeyri. Þar eru ýmiskonar innanlands- og heimsvandamál rædd og jafnvel leyst. Þingeyrarakademían kemur til dyranna eins og hún er klædd.