„Svo fór hann að hlæja.“

Konur sem starfa eða hafa starfað innan sviðslista og kvikmyndagerðar á Íslandi hafa nú líkt og konur í stjórnmálum birt undirskriftalista og sögur af kynferðislegri áreitni og ofbeldi í sínum störfum og er er fyrirsögnin tekin úr eftirfarandi sögu:

Ég var að leika í sýningu og varð hrifin af ljósamanninum. Við byrjuðum að hittast og ég vildi fara rólega og bíða með kynlíf þangað til við þekktumst betur. Kvöld eitt missti hann þolinmæðina og nauðgaði mér. Ég mætti ósofin og í áfalli á æfingu daginn eftir. Ég skalf og titraði við tilhugsunina um að hann vofði hátt yfir höfðinu á mér, að elta mig með eltiljósi. Mér fannst ég fangelsuð. Í hádeginu gat ég ekkert borðað, og þá sagði aðalleikarinn hátt og hæðnislega yfir borðið, svo allir heyrðu: Æ æ, mölvaði ljósamaðurinn í þér hjartað? Svo fór hann að hlæja.

Sögurnar fjalla ekki eingöngu um kynferðislega áreitni og ofbeldi heldur þann sjúka valdastrúktúr sem mætir konum og heldur þeim niðri. Þær virðast hafa minna vægi og vald og að hafna valdameiri karlmanni getur eyðilagt starfsferilinn

Ég gegni ábyrgðarstöðu innan kvikmyndabransans og hef hvorki tölur né yfirlit um öll þau skipti sem mér hefur verið mismunað vegna kynferðis míns gegnum tíðina. 

Ég hef setið á fundum þar sem hugmyndir mínar hafa verið þaggaðar og svo endurteknar af karlmanni skömmu síðar og þá á þær hlustað. Ég hef barist í óteljandi skipti fyrir því að jafnhæf kona sé ráðin frekar en karl og sjaldan á það hlustað. Ég hef endalaust reynt að hafa áhrif á að konur hafi ásýnd til jafns við karla í þeim verkefnum sem ég hef tengst og baráttan oft verið erfið og engu skilað, eins og að berja höfðinu við stein. Í kringum mig hefur launaleynd viðgengist lengi og þegar ég hef samið við karlkyns yfirmenn hef ég alltaf verið beðin um trúnað um þær tölur og ef ég hef brotið hann, hef ég komist að því að það var vegna þess að ég var með lægri laun en karl í áþekku starfi. Ég hef rekið mig á það að karlkynskollegar mínir hafa mun meira svigrúm til orða, athafna og mistaka án þess að vera hengdir fyrir það en konur. Ég hef ekki enga yfirsýn yfir hversu oft karlkyns yfirmaður í kringum mig hefur misbeitt valdi sínu. Ég man ekkert hversu oft ég hef fengið óviðeigandi, kynferðislegar og niðurlægjandi athugasemdir, sem eru augljóslega bara til þess að slá mig út af laginu og halda mér á mínum stað, í óörygginu. Magnið af þessu rugli er slíkt að ég hef enga yfirsýn lengur, en ég lít samt á mig sem “heppna” því mér hefur ekki verið nauðgað eða ráðist á mig líkamlega. En ansi oft andlega. Og það hefur áhrif til lengri tíma. En ég hef líka átt marga, marga, samstarfsmenn sem hafa komið fram af sjálfsagðri virðingu og réttlæti. Þeir eru bara ekki til umræðu akkúrat núna, þó þeir séu nauðsynlegur hluti af umræðunni til framtíðar.

Hér er hægt að nálgast undirskriftalistann og gefum þeim orðið:

Kynferðisofbeldi, áreitni og kynbundin mismunun á sér stað í sviðslista- og kvikmyndageiranum, rétt eins og annars staðar í samfélaginu.

Þá gerir smæð bransans og takmarkaður fjöldi hlutverka/tækifæra aðstæður erfiðari. Óþarfi er að taka fram að allir karlar gerast ekki sekir um áreitni eða mismunun – en hins vegar verða nær allar konur fyrir því á starfsferli sínum og það er algerlega óásættanlegt.

Við krefjumst þess að karlkyns samverkamenn okkar taki ábyrgð; að yfirvöld, leikhús og framleiðslufyrirtæki taki af festu á málinu og komi sér upp verkferlum og viðbragðsáætlun.

Við eigum ekki að þurfa að þegja lengur né leiða ástandið hjá okkur.

Við verðskuldum að okkur sé trúað og sýndur stuðningur. Fyrst og fremst á misréttinu að linna.

Við krefjumst þess að fá að vinna vinnuna okkar án áreitni, ofbeldis eða mismununar.

Við stöndum saman og höfum hátt.

bryndis@bb.is

DEILA