Félag um stofnun Lýðháskóla á Flateyri auglýsir nú eftir framkvæmdastjóra en hingað til hefur öll vinna við uppbyggingu og þróun skólans verið unnin af rúmlega 30 manna hópi sjálfboðaliða úr hópi heimamanna, listafólks, sérfræðinga og skólafólks, en gert er ráð fyrir að framkvæmdastjóri taki til starfa hinn 15. febrúar nk, og stýri undirbúningi og þróun skólans sem vonir standa til að geti hafið starfsemi næsta haust. Stjórn félagsins hefur óskað eftir fundi með þingmönnum kjördæmisins um leið og þing kemur saman til að kynna þeim málið og ósk félagsins um kennsluframlag til skólastarfs með sambærilegum hætti og almennt gerist meðal framhalds- og háskóla.
Runólfur Ágústsson stjórnarformaður félags um lýðháskóla segir námsskrár að mestu tilbúnar, öll aðstaða er fyrir hendi og til stendur til þess að fara af stað með inntöku 60 nemenda strax næsta haust. Einnig vinni félagið að því að fjármagna sérstaklega kostnað við stofnun skólans, m.a. með stuðningi fyrirtækja og velunnara.
Runólfur telur samfélagsleg áhrif á Flateyri yrðu afar jákvæð með 60 nýjum íbúum í plássið á besta aldri auk þeirra starfa sem skólinn myndi skapa með beinum hætti en um er að ræða 2-4 föst stöðugildi auk 10-20 verkefnaráðinna kennara í hlutastörfum þar sem ávallt yrði leitast við að nýta staðbundna þekkingu. Einnig myndu börn nemenda (og starfsfólks) styrkja verulega starfsemi leik- og grunnskóla staðarins.
- Markhópurinn er ungt fólk sem lokið hefur framhaldsskólaprófi án þess að vita hvað það vill, ásamt eldra fólki, 25-35 ára sem hætti framhaldsskólanámi á sínum tíma en vill koma aftur til náms og finna sína fjöl.
- Fjölmennur hópur íslenskra ungmenna stundar í dag nám við lýðháskóla erlendis, aðallega í Danmörku og vinsældir lýðháskóla fara mjög vaxandi.
- Starfsemi skólans getur sparað hinu opinbera umtalsverða fjármuni og komið í veg fyrir sóun í menntakerfinu þar sem stór hópur hefur árlega nám innan hins hefðbundna skólakerfis, án þess að vita í sjálfu sér hvert skuli stefna, og hverfur síðan frá slíku námi eftir mikinn tilkostnað, bæði persónulegan og samfélagslegan.
- Ekki verður áhersla á gráður eða einingar, heldur að gera það sem eitt sinn var kallað „að koma fólki til manns“, nám þar sem fólk lærir að gera hluti með kennara með því að framkvæma þá.
- Búið er að þróa þrjár námslínur út frá greiningu á styrkleikum staðarins, kvikmyndavinnu (vegna mikils fjölda kvikmyndagerðarfólks sem á hús á staðnum og dvelur þar), tónlistarsköpun (vegna sterkrar tónlistarhefðar á Vestfjörðum) og umhverfis/sjálfbærnisnáms, þar sem áherslan er á að lifa af og með náttúrunni. Þar kenna heimamenn veiðar, harðfiskverkun, grjóthleðslu, björgunarstörf, fjallaskíðamennsku o.fl.
- Félagið nýtur stuðnings heimamanna. Á stofnfundinn í febrúar sl. mættu 120 manns.
- Öll aðstaða til skólahalds og húsnæði fyrir nemendur yfir vetrarmánuðina er til staðar á Flateyri, vannýtt í dag.
- Formlegt samstarf er við Fræðslumiðstöð Vestfjarða um málið og sömuleiðis verður leitað samstarfs við Háskólasetur Vestfjarða og Menntaskólann á Ísafirði.
Umsóknafrestur um starf framkvæmdastjóra rennur út hinn 15. desember næstkomandi, starfsstöð hans er á Flateyri og segir Runólfur að búseta á atvinnusvæði Ísafjarðarbæjar sé skilyrði.
bryndis@bb.is