Söngleikurinn Matilda verður frumsýndur í Félagsheimili Bolungarvíkur á morgun kl. 13. Það er Halldóra Jónasdóttir sem stendur að sýningunni en hún bæði leikstýrir verkinu og hefur þýtt leiktextann og alla söngtextana. Halldóra er Bolvíkingum að góðu kunn en hún er dóttir Sólrúnar Geirsdóttur, kennara við menntaskólann, og Jónasar Guðmundssonar, sýslumanns.
Halldóra stundar nám við kennaradeild Háskóla Íslands og er sýningin hluti af útskriftarverkefni hennar úr grunnnáminu næsta vor. Í sýningunni leika 27 krakkar á aldrinum 8-15 ára. Höfundur sögunnar er Roald Dahl en Dennis Kelly samdi söngleikinn með tónlist Tim Minchen.
Söngleikurinn fjallar um lítinn snilling að nafni Matilda, hún er ekki metin að verðleikum heima hjá sér og í skólanum þarf hún að horfa upp á mikið óréttlæti. Matilda reynir að berjast gegn öllu óréttlætinu og segir að stundum sé í lagi að gera það sem er bannað. Sýningin er stútfull af gleði, drama, tónlist og sprelli.
Líkt og með allar stórar og metnaðarfullar uppfærslur er búið að gera stiklu úr sýningunni sem má horfa á hér.
Sýningarnar verða sem hér segir:
Laugardaginn 25. nóvember klukkan 13:00 og 16:00
Sunnudaginn 26. nóvember klukkan 13:00 og 16:00
Miðaverð fyrir 6 ára og eldri eru 1000 krónur
smari@bb.is