Fyrir dyrum standa umfangsmestu breytingar sem gerðar hafa verið á persónuverndarlöggjöf Evrópusambandsins. Breytingarnar leiða af reglugerð ESB um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga sem kemur til framkvæmda innan Evrópusambandsins 25. maí 2018.
Í minnisblaði Gísla Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, kemur fram að innleiðing persónuverndarlöggjafarinnar hefur í för með sér umtalsverðan kostnað fyrir Ísafjarðarbæ. Í minnisblaðinu segir að kostnaðurinn verði að líkindum 20 milljónir króna á næsta ári. Bærinn þarf að ráða verkefnisstjóra tímbandið til að stýra verkefninu og einnig þarf að kaupa ráðgjöf og hugbúnað.
Sem dæmi þarf Ísafjarðarbær að fara yfir alla meðferð á persónuskjölum hjá sveitarfélaginu, í öllum stofnunum þess – sem telur m.a. fjóra grunnskóla og fimm leikskóla þar sem mikið er höndlað með persónuupplýsingar. Einnig þarf að fara yfir meðferð persónuskjala í félagsþjónustunni og í málaflokki fatlaðra sem eru gríðarstórir málaflokkar og starfsstöðvar víða í sveitarfélaginu.
smari@bb.is