Vestfirðingur ársins 2016 Katrín Björk Guðjónsdóttir er í vikuviðtali Bæjarins besta sem borið er í hús á norðanverðum Vestfjörðum í dag. Katrín Björk hefur bloggað um leið sína að bata eftir stóreflis heilablæðingu sem hún fékk einungis 21 árs að aldri á vefsíðunni https://katrinbjorkgudjons.com/ Katrín hefur sannarlega hrifið fólk með skrifunum og nefndu margir til aðdáun sína á styrk hennar og lífsviðhorfum sem ástæðu fyrir vali sínu er þeir kusu hana Vestfirðing ársins. Það er ekki hægt annað en að heillast af þessari ungu konu sem sannarlega glímir við önnur verkefni í lífinu en flestar jafnöldrur hennar.
Katrín Björk er með einstakt minni og man hún vel er hún fann fyrir því að hún væri að fá heilablæðingu að nýju, en það hafði áður gerst um hálfu ári fyrr. Hún man líka vel tímann eftir að hún vaknaði upp að nýju: „Katrín Björk með sitt ótrúlega minni man kristaltært eftir dvölinni á gjörgæslunni eftir aðgerðina. Hver sagði hvað og hver gerði hvað. Mamma hennar segir að tíminn sé nú meira og minna í móðu hjá henni, en öðru máli gegni um Katrínu sem muni allt í smáatriðum og segir um fyrstu minninguna þegar hún vaknaði á gjörgæsludeild: „Ég man þegar mamma sat hjá mér og horfði í augun á mér og sagði að ég hefði fengið aðra heilablæðingu og ég væri að vakna eftir aðgerð þá hugsaði ég: „Vá! Ég lifði.“
Eftir heilablæðinguna sem Katrín fékk árið 2014 fylgdi erfiður tími í kjölfarið, hún fann fyrir miklum kvíða og reiði. En hún segir að sú ró sem hana hafi vantað hafi komið í kjölfar stóru heilablæðingarinnar árið 2015: „Fyrir mig var þetta óeðlileg hegðun og ég sé eftir því. Þegar ég lít til baka þá var ég í eilífum feluleik það mátti til dæmis enginn sjá að höndin mín væri ónothæf. Ég hefði þurft að „knúsa” sjálfa mig og róa mig niður og ekki vera svona ofboðslega kvíðin og ósátt yfir því að ná ekki fyrri færni aftur. Þegar ég vaknaði eftir stóru blæðinguna þá var róin sem mig hafði vantað komin. Í dag er ég sátt við þennan ótímabæra þroska sem mér hefur verið gefin, þetta kraftlitla andlit segir sögu sem ég mun aldrei nokkurn tímann skammast mín fyrir. Ég nýt þess að finna styrkinn aukast með hverjum degi sem líður.“
Blogg Katrínar Bjarkar birtir líka vel önnur hugðarefni hennar og áhugamál, svo sem: tísku, áhuga á bloggum, snyrti- og húðvörum, næringarríkum mat, heilsu og innanhúshönnun. Allt er fallega framsett há henni og bloggin prýða flottar ljósmyndir sem Katrín fær vini og ættingja til að taka eftir kúnstarinnar reglum og svo vinnur hún myndirnar áður en hún birtir þær.
Í viðtalinu, sem má lesa í heild sinni hér, kemur glögglega í ljós að þar er mikil kjarnakona á ferð, sem tekst á við verkefnin sem lífið færir henni af einstökum styrk og æðruleysi.