Gera gott samfélag betra

Hugguleg stemmning á bláberjadögum í Súðavík í sumar.

Um helgina verður haldið íbúaþing í Súðavíkhreppi. Pétur G. Markan sveitarstjóri segir þingið vera part af átaki sem sveitarstjórn hóf í upphafi kjörtímabilsins sem miðar að því að efla þátttöku og aðkomu íbúa að málefnum sveitarfélagins.

Íbúaþingið verður í höndum Sigurborgar Kr. Hannesdóttur sem er sérfræðingur í lýðræðisþátttöku íbúa. Þingið stendur í tvo daga, laugardag og sunnudag. Pétur segir að afurð þingins verði síðan notuð m.a. í heildarendurskoðun aðalskipulags Súðavíkurhrepps sem nú stendur yfir. „Aukinheldur mun vinna þingsins gagnast vel þegar líður að kosningum næsta vor. Þá verður gott að hafa nýlega stefnumótun íbúa til að styðjast fyrir vonlega frambjóðendur. Fyrst og fremst er þingið hugsað til að vald- og hópefla alla þá framúrskarandi íbúa sem búa í Súðavíkurhreppi, leiða saman hugvit þeirra og krafta til að efla gott samfélag og gera það þannig enn betra,“ segir Pétur.

Í kringum þingið verða síðan fullt af viðburðum til að gleðja og kæta mannsandann, s.s. kótilettukvöld, pizzukvöld, dansleikur með stórhljómsveit Árna Þorgilssonar, íþróttadiskótek  og margt fl.

Dagskráin hefst í dag en sjálft íbúaþingið verður á morgun og á sunnudag.

 

DEILA