Áfangastöðum forgangsraðað

Ferðamenn á Látrabjargi.

Undanfarna mánuði hefur Markaðsstofa Vestfjarða unnið að gerð áfangastaðaáætlun fyrir Vestfirði. Um er að ræða verkefni sem leitt var af Ferðamálastofu og Stjórnstöð ferðamála og síðan samið við Markaðsstofur landshlutanna um að halda utan um vinnuna á verkefninu.

Verkefnið snýst um að skipuleggja og samhæfa þróun og stýringu á öllum þeim þáttum sem geta haft áhrif á upplifun ferðamanna á svæðinu. Þetta er unnið með tilliti til þarfa gesta, heimamanna, fyrirtækja og umhverfis.

Með gerð áfangastaðaáætlunar DMP fyrir Vestfirði verður til heildræn stefna sem tekur til allra þeirra þátta sem atvinnugreinin tengist; umhverfi, íbúum og samfélagi.

Verkefnið á að auðvelda opinbera ákvörðunartöku sem tengjast meðal annars uppbyggingu þjónustu, skipulagsmálum, aðgangsstýringu og markaðsáherslum.

Á Vestfjörðum er unnin ein áfangastaðaáætlun með þremur aðgerðaáætlunum skipt niður á eftirfarandi svæði.

  • Norðursvæði – Ísafjarðarbær, Bolungarvíkurkaupstaður og Súðavíkurhreppur
  • Suðursvæði – Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur
  • Strandir og Reykhólar – Árneshreppur, Kaldrananeshreppur, Strandabyggð og Reykhólahreppur

Á næstu tveimur vikum verða opnir svæðisfundir og markmið þeirra er að fara yfir nokkur atriði sem tengjast þessari vinnu. Þar verður einnig ákveðið hver forgangsverkefni hagsmunaaðila á svæðinu verða.

Fundirnir verða sem hér segir:

  • Hólmavík, í Hnyðju – 20. nóvember 2017, kl. 11-14
  • Patreksfjörður, í Félagsheimilinu – 21. nóvember 2017, kl. 09-12
  • Ísafirði, á Hótel Ísafirði – 30. nóvember, kl. 11-14

smari@bb.is

DEILA